152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

raunverulegir eigendur.

586. mál
[19:01]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að einn af þeim ávinningum sem koma með þessari vinnu, að taka svolítið til hvað þetta varðar, sé sá að hér hafa auðvitað verið skráð aflandsfélög úti um allt, því miður, þar sem reksturinn ætti jafnvel að vera skráður annars staðar o.s.frv., og við sáum í aðdraganda hrunsins að það var komin upp mjög flókin uppbygging á félögum ofan á félög sem gerði oft eftirlitsskyldum aðilum hreinlega erfitt fyrir að veita það fjármálaeftirlit sem nauðsynlegt var. Auðvitað eru stjórnvöld, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim, að senda mjög skýr skilaboð um að þetta þurfi bara að vera í lagi til þess að hagkerfið sé öruggara. Við sjáum, og það er mjög jákvætt, að þetta er komið í fastari skorður.

En af því að hv. þingmaður minntist á þær reglur sem hv. þingmenn og ráðherrar þurfa að undirgangast út af stjórnmálaþátttöku sinni má til gamans nefna að börnin mín fengu sent slíkt bréf, eða dóttir mín sem var þá 11 ára. Henni brá nokkuð mikið og spurningarnar sem hún fékk voru þess eðlis að hún var farin að hafa verulegar áhyggjur af stjórnmálaþátttöku móður sinnar.