152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

minnisvarði um eldgosið á Heimaey.

376. mál
[19:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir máli sem er kannski smátt að sjá en samt þýðingarmikið. Þetta er tillaga til þingsályktunar um minnisvarða um eldgosið á Heimaey, en á næsta ári verða liðin 50 ár frá lokum Heimaeyjargossins. Þegar við sem núna upplifum jarðhræringar í nágrenni byggðar á Reykjanesi rifjum upp þessa atburði sem urðu í Vestmannaeyjum má segja að fáir atburðir hafi markað jafn djúp spor í sögu Íslands á liðinni öld. Þegar íbúar Vestmannaeyja urðu að flýja heimili sín í einni svipan þegar gossprunga opnaðist nánast við bæjardyr þeirra minnir það okkur á hversu mikið nábýlið er hér í þessu landi við náttúruöflin. Og fyrir ótrúlega mildi gekk giftusamlega að koma öllum heilu og höldnu frá eyjunni á fyrsta sólarhring gossins, þökk sé miklum samtakamætti þjóðarinnar. Þar voru svo sannarlega einstök afrek unnin við einkar krefjandi aðstæður. Baráttuandi heimafólks og björgunarfólks vakti heimsathygli og ekki síður þau úrræði sem gripið var til. Þar vil ég sérstaklega nefna hina merku hraunkælingu sem talin er hafa bjargað innsiglingunni til Eyja.

Helstu innviðir, ásamt hundruðum heimila, urðu jarðeldunum að bráð, en eldgosið var ekki aðeins áfall fyrir íbúa Heimaeyjar heldur einnig efnahagslegt högg fyrir hið unga lýðveldi. Vestmannaeyjar eru stærsta verstöð landsins.

Þá kem ég að margbreytileika þessa máls, því að ekki aðeins er þessi minnisvarði hugsaður sem minnisvarði um þessar hamfarir sem og samtakamátt þjóðarinnar heldur líka þann stuðning sem við upplifðum í verki frá Norðurlöndunum sem sýndu stuðning sinn í verki með rausnarlegu fjárframlagi frá stjórnvöldum og félagasamtökum, sem er til marks um gildi og mikilvægi norrænnar vináttu og norræns samstarfs. Þannig að í senn má hér segja sögu um einstakt sambýli manns og náttúru, sögu um þann kraft og hug sem einkenndi endurreisnina sem og þann stuðning sem við upplifðum frá vinaþjóðum okkar.

Í ljósi alls þessa tel ég mikilvægt að minnast gossins með myndarlegum hætti á þessum tímamótum. Haustið 2021 undirrituðum ég og bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum viljayfirlýsingu um samvinnu og undirbúning viðburða í tilefni goslokaafmælisins. Sá undirbúningur er hafinn og samhugur ríkir um að gerð minnisvarða hæfi tilefninu vel. Vestmannaeyjabær hefur samið við Stúdíó Ólafs Elíassonar um hugmyndavinnu fyrir minnisvarða, en hann er, eins og kunnugt er, einn af okkar fremstu listamönnum sem hefur hlotið lof og viðurkenningu fyrir listsköpun sína víða um heim. Ríkisstjórnin veitti því verkefni styrk af ráðstöfunarfé sínu og hyggst koma með myndarlegum hætti að gerð minnisvarða og öðrum undirbúningi í tengslum við tímamótin.

Frú forseti. Þessi tillaga gerir ráð fyrir að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að undirbúa kaup á minnisvarða um Heimaeyjargosið sem og að annast frekari undirbúning fyrir uppsetningu og afhjúpun minnisvarða sumarið 2023. Vegna eðlis málsins átti ég fund með forsætisnefnd og þingflokksformönnum og kynnti þeim þá það að hér hafa verið lagðar fyrir tillögur til þingsályktunar um minnisvarða um eldgosin í Surtsey og á Heimaey. Þá er ég að vísa til þeirra tillagna sem lagðar voru fyrir 151. og 152. löggjafarþing af Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Suðurkjördæmis, ásamt meðflutningsmönnum. Eftir það samráð sem ég hafði við forsætisnefnd Alþingis og þingflokksformenn tel ég að samhugur ríki um að undirbúningur fyrir kaup og afhjúpun á minnisvarða fari fram í nánu samráði við Alþingi, enda er þetta ekki flokkspólitískt mál og því flyt ég það hér sem þingmaður.

Ég legg það til að undirbúningsnefndin verði skipuð fimm fulltrúum. Tveir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, tveir af Alþingi ásamt formanni sem verður þá skipaður af forsætisráðherra. Samhliða þessu verkefni verður unnið áfram að undirbúningi viðburða í tilefni goslokaafmælisins með bæjaryfirvöldum Vestmannaeyjabæjar. Meðal þeirra vil ég sérstaklega nefna það að ég hef ákveðið að bjóða forsætisráðherrum Norðurlandanna til fundar í Vestmannaeyjum. Áætlað er að hann verði haldinn í seinni hluta júnímánaðar á næsta ári til minningar um mikilvægt framlag Norðurlandanna, sem var rætt sérstaklega á Norðurlandaráðsþingi í tilefni af þeirri endurreisn sem þá var hafin í Vestmannaeyjum, til marks um hversu miklu norrænt samstarf getur áorkað þegar á reynir.

Ég vonast til þess að geta tekið á móti þessum góðu forsætisráðherrum í Vestmannaeyjum við þetta merkilega tilefni og ég vonast til og held að hér sé komin fram tillaga sem fái greiða umfjöllun í nefnd. Ég hefði gjarnan kosið að koma henni fyrr hér á dagskrá en það hefur margt annað verið undir. En ég hef væntingar um það eftir góða umfjöllun með forsætisnefnd og þingflokksformönnum að um þetta geti ríkt góð samstaða enda getur þetta orðið Alþingi og Íslendingum til mikils sóma og um leið verið verðugur minnisvarði um þessa merku atburði sem hafa haft áhrif, ekki bara á sögu Vestmannaeyja heldur Íslandssöguna alla.

Að þessari ræðu lokinni vænti ég þess að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og væntanlega til allsherjar- og menntamálanefndar.