Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

ákvörðun nr. 22/2020 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

434. mál
[19:57]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir góða framsögu. Þetta er mál sem ég hef verið að ræða dálítið um þegar hefur farið í gegnum hið hefðbundna ferli sem reglugerðir og breytingar á EES-samningnum fara í gegnum. Þegar álitið er lesið þá kannski hljómar þetta rosalega tæknilega allt saman. Þessi þingsályktunartillaga fjallar um peningamarkaðssjóði. Þau okkar sem muna eftir því sem gerðist í hruninu vita að þá kom í ljós að regluverkið um peningamarkaðssjóði var ekki nógu gott. Bæði voru ekki nógu traust skuldabréf í þessum sjóðum og eins var það þannig að vel tengdir aðilar gátu fengið upplýsingar um hvernig staðan var á þessum sjóðum fyrr en aðrir og gátu því tekið peninga út.

Við hæstv. fjármálaráðherra ræddum hér í gær um frumvarp til laga um peningasjóði sem einmitt tengist þessari ákveðnu innleiðingu. Það er von mín að þessi ákveðna þingsályktun verði samþykkt því að hún felur í sér réttarbót fyrir fólk sem vill fá trausta ávöxtun án þess að hætta sé á því að einhverjir vinir og vandamenn tengdra aðila nái að taka peninga út á undan öðrum ef áhlaup kemur á sjóðina. Ég mun því styðja þessa þingsályktunartillögu rétt eins og frumvarpið sem er að fara í gegnum sitt hefðbundna ferli.