152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

áfengislög.

596. mál
[20:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég tek til máls í þessu máli, minnug þess að ég sat í allsherjar- og menntamálanefnd þegar frumvarp þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra var þar til meðferðar. Ég er, rétt eins og ég var þá, hlynnt þessu frumvarpi sem mér sýnist að sé í öllum atriðum hið sama, einhverjar lítils háttar breytingar sem hafa ekki þýðingu hvað réttaráhrif varðar. Mín helsta gagnrýni er sú að mér finnst þetta frumvarp ekki ganga nógu langt varðandi þau sjónarmið sem komu m.a. fram hjá hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni varðandi þetta 500.000 lítra mark, hvað býr þar að baki o.s.frv. Þannig að ég styð þetta mál og tel að það sé gott svo langt sem það nær, en það nær vitaskuld ekki mjög langt. Þetta er óskaplega feimið skref í frelsisátt, myndi ég segja, en skref í rétta átt og kannski táknrænt fyrir vilja þess ráðherra sem það leggur fram. En minnug þess hvernig frumvarpið var eins og það birtist okkur hér í síðasta sinn þá sáum við aðra drætti og það mál hugnaðist mér betur. Þar var um að ræða breytingar á áfengislögum sem heimilaði þá sölu sem hér er leyfð, sölu úr brugghúsum, en heimilaði jafnframt netverslun. Ég sé að hv. þm. Hildur Sverrisdóttir er hér í salnum í kvöld og hún hefur jú lagt fram frumvarp þess efnis og það er af hinu góða og sennilega nauðsynlegt fyrst það fékk ekki að rata með inn í þetta mál. En ég held að netverslunin sé nú stóra skrefið í frelsisátt í stóra samhenginu. Málið núna tekur eingöngu til leyfis þessara brugghúsa til að selja áfengi úr húsunum sjálfum. Ég man eftir að hafa hlýtt á umsagnir við meðferð málsins þar sem fram kom að það er mikil gróska, það hefur verið mikil nýsköpun í ferðaþjónustu og heimsóknir í þessi brugghús eru liður í því. Það held ég að sé jákvætt skref í þágu ferðaþjónustunnar og menningarinnar að stjórnvöld styðji við það og landsbyggðina um leið með því að stíga þetta skref. Ég man eftir því að fram komu tölur um hver fjöldi þessara brugghúsa er á landinu í dag. Hann er í tugum talinn og þessi brugghús framleiða, eins og við vitum, fjölbreytt úrval afurða, gjarnan með skírskotun í staðhætti og menninguna um leið. Ég held að menn eigi ekki að vera feimnir við að viðurkenna að bjórinn getur vel verið hluti af matarmenningu hverrar þjóðar.

Ég sé þetta frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra sem feimið frelsiskref en skref í rétta átt og ágætisbyrjun. En ég hefði nú haldið, miðað við alla þá umræðu sem farið hefur fram í þessum sal og í samfélaginu öllu um aukið frjálslyndi í þessum efnum, ekki síst af hálfu þess flokks sem hæstv. dómsmálaráðherra tilheyrir, að skrefið hefði mátt vera stærra. Ég myndi í því samhengi vilja nefna að með brugghúsunum eða því umhverfi sem við lifum í í dag, þessu lagaumhverfi, hallar auðvitað á smærri brugghúsin hvað varðar samkeppni, sem eiga erfiðara með að selja vörur sínar í dag en stærri samkeppnisaðilar. Það er ákveðinn kjarni. Jafnvel þó að við séum að tala um þessa vöru er það löggjafans að stuðla að heilbrigðri og eðlilegri samkeppni hér eins og annars staðar. Þótt við séum að fjalla um áfengi er ekki hægt að víkja alfarið frá almennum viðhorfum og sjónarmiðum hvað samkeppnina varðar. Þetta ætla ég að segja með þeim eðlilega og nauðsynlega fyrirvara að vitaskuld lýtur áfengi öðrum lögmálum en gilda um margar aðra vörur. Við höfum aldursskilyrðin, við höfum það samofið í löggjöf og menningu okkar hvar þykir passandi að neyta þessarar vöru og hvar ekki, við beitum markvissum og góðum forvörnum gagnvart börnum og ungmennum þannig að ég held að samfélagið allt hafi skilning á nauðsyn þess. Verðlagningin er annað atriði sem stuðlar að því að reyna að hafa áhrif á aðgengi. En engu að síður er áfengi líka hluti af hinu daglega lífi og þá er óeðlilegt og óheilbrigt að bjóða upp á þetta brogaða samkeppnisumhverfi sem reyndin er.

Ég vildi nefna að ég er hlynnt því að fara þessa leið og hefði, eins og ég segi, gjarnan viljað taka stærra skref því að ég held að opnari leið muni stuðla að heilbrigðari nálgun gagnvart þessari vöru sem og heilbrigðari markaði. Sá hluti sem varðaði netverslunina á sínum tíma fól auðvitað líka í sér ákveðna nálgun og ákveðna viðurkenningu á samkeppni milli innlendra og erlendra aðila, að jafna leikinn í því samhengi. Mér hefur fundist umhugsunarvert að ekki sé verið að bregðast við því þegar það er svo augljóst mál að aðgengið er eins og það er, en samkeppnisumhverfi og rekstrarumhverfi milli innlendra og erlendra aðila er verulega ójafnt. Ég hlakka til að fylgjast með umræðum um þetta mál og það er aldrei að vita nema það taki einhverjum breytingum í meðförum allsherjar- og menntamálanefndar eða að fram komi einhverjar breytingartillögur. En ég vísa að öðru leyti til þess að það liggur hreinlega fyrir ágætisfrumvarp frá hv. þm. Hildi Sverrisdóttur og ég vona að flokkssystkini hennar muni jafnframt eftir því máli.