152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

áfengislög.

596. mál
[21:34]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson kærlega fyrir andsvarið. Ég tek undir með henni og forsendurnar í andsvari hennar. Það var rætt á vettvangi flokks okkar hæstv. dómsmálaráðherra hvort það færi betur á því að hafa þessi mál í einum og stærri lagabálki. Ég ætla að vera heiðarleg varðandi það að það var mín skoðun að það færi ekki vel á því. Eftir að hafa fylgst með umræðu um áfengi um ansi langt skeið, bæði á vettvangi þingsins og í samfélaginu sjálfu, og ég hef sjálf komið að því með ýmsum hætti í gegnum árin, þá er það mitt mat, af hvaða ástæðum svo sem það er, að það sé í þessu samtali þar sem við erum smám saman tilbúin að opna aðeins meira dyrnar, tökum fyrir mál eins og þetta, sem er vissulega skref í frelsisátt og er ofboðslega mikilvægt sem slíkt en það er kannski fyrst og fremst ferðaþjónustumál — það mun ekki kollvarpa því hvernig við lítum á áfengislöggjöf eða hvaða hömlur við viljum hafa á henni almennt, alla vega núna fyrst um sinn. Þannig að það er mitt mat og ég var bara heiðarleg með það, enda er það svo að hæstv. dómsmálaráðherra kemur fram með þetta mál og þingmannamálið mitt er nú þegar komið í nefnd og þessi mál eru eðlisólík. Ég held að hvort um sig græði meira á því að allir nálgist þau þannig, þar eru aðeins mismunandi áskoranir, aðeins mismunandi umræður og það er sjálfsagt að hvort um sig fái það svigrúm sem það á skilið, en bæði eru þessi mál mikilvæg í þessari heildarvegferð.