152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

áfengislög.

596. mál
[21:36]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mér þykir gott að vita að svona hafi samtalið verið og ég er ekki frá því að þetta sé rétt mat. Á sama tíma er ég enn þá þeirrar skoðunar að við þurfum alla vega að stíga varlega til jarðar ef við ætlum að búta þetta í sundur af þeim ástæðum sem ég nefndi áðan. En líklega er þetta hárrétt mat. Mér þykir ekki ólíklegt að hefði þetta farið saman væri málið andvana fætt, alla vega hér og nú. Ég bind enn þá vonir við að það mál sem hæstv. ráðherra leggur hér fram sé það sannarlega ekki að þessu sinni. En kannski bara fyrir forvitnissakir: Nú verð ég að lýsa þeirri skoðun að ég tel ekki líklegt, því miður, að þingmannamál hv. þingmanns með netverslunina fari í gegn núna. Ég tala bara af reynslu af því hvernig meðferð þessi mál hafa fengið og þingmannamál svo sem almennt. Ef við hugsum þetta þá væri kannski mögulegt, eftir meðferð í nefnd og umfjöllun — kannski er ég bara með svona vonda kristalskúlu, kannski fer þetta mál í gegn, það væri óskandi, en ef ekki þá er þetta mögulega mál sem hæstv. dómsmálaráðherra tekur næst upp á sína arma. Hef ég skilið þingmanninn rétt; er það þannig sem hún sér fyrir sér að við náum smám saman tökum á þessu máli?