152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

áfengislög.

596. mál
[22:23]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það verklag sem hv. þingmaður vísar í hafi verið til fyrirmyndar. Ef ég man þessa atburðarás rétt þá var það einmitt þáverandi hv. þm. Teitur Björn Einarsson sem var 1. flutningsmaður á frumvarpinu, hv. þm. Hildur Sverrisdóttir var það jafnframt og þáverandi hv. þm. Pawel Bartoszek var einn af flutningsmönnum. Ég held þau hafi verið fleiri. Ef ég man þetta rétt þá var það svo Pawel sem var frummælandi á málinu þegar það var komið inn í nefnd og þess vegna tók hann þetta hlutverk að sér að fara á milli og sjá hvernig við gætum komið þessu máli út úr nefnd og ég held að hann hafi gert það mjög vel. En því miður fór það ekki í gegn. Ég held að frumvarpið hafi meira að segja verið lagt fram á þinginu á eftir og þá af þáverandi hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, sem var í rauninni upphaflega frumvarpið hans Teits og fleiri með þeim breytingum sem orðið höfðu í nefndinni. En það fór ekki heldur í gegn þannig að hér erum við enn á sama stað. Nú erum við með þetta skref sem snertir sérstaklega örbrugghúsin okkar, sem eru frábært framtak og nýsköpun í bæði ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og upplifunariðnaði. Ég held að ráðherra hafi gert þetta bara vel. Fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra lagði líka þetta mál fram aðeins breytt þannig að við erum alltaf að reyna nýjar og nýjar leiðir. Ég held af því sem ég hef heyrt hér í dag að flestir geti sætt sig við þá breytingu sem hér er þannig að ég vona innilega — sjö, níu, þrettán — að við getum gert það að lögum.