152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[23:10]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Herra forseti. Við erum að ræða mikilvægt frumvarp og ég tek heils hugar undir þau orð hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson að það skuli fara í gegn. Ég hvet forseta þingsins til að setja atkvæðagreiðslu um það á dagskrá eins fljótt og auðið er þannig að þó svo að það verði jarðskjálftar, eldgos eða stjórnin hrynur þá fari það í gegn. Eins og bent var á af hv. flutningsmanni Bryndísi Haraldsdóttur er hér verið að laga til ýmis atriði í almennum hegningarlögum, m.a. verið að uppfæra löggjöf í tengslum við barnaníð, nokkuð sem svo sannarlega þarf að gera reglulega. Það er því miður þannig að þeir sem stunda þessa iðju nýta sér tækni og alls konar leiðir fram hjá því sem við sem erum að berjast gegn þessu erum með. Því er mikilvægt að fylgja þessu eftir og líka gera það þannig að refsingarnar séu strangari af því að það er mjög algengt að þetta séu síbrotamenn sem horfa á slíkt efni.

Varðandi aðra hluta frumvarpsins þá tekur það einnig á 233. gr. a laganna um hatursorðræðu. Þetta er grein sem við höfum rætt mikið, m.a. innan Pírata, enda hefur ein af vorum varaþingkonum lent mikið í slíkri hatursorðræðu á netinu. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að uppfæra hvað fellur undir þetta ákvæði en jafnframt mjög mikilvægt að meira sé gert af því að ákæra í þessum efnum. Þó svo að í dag sé ekki leyfilegt að vera með hatursorðræðu sem tengist þjóðerni, litarhætti, kynþætti, trúarbrögðum, kynhneigð eða kynvitund og nú þjóðlegum uppruna og fólki með fötlun og ódæmigerð kyneinkenni þá er allt of lítið af ákærum í þessum efnum og jafnvel sýknað í málum sem snúast um það sem ég held að við myndum flest túlka sem hatursorðræðu. Það er að vissu leyti ánægjulegt að sjá að hæstv. forsætisráðherra er að fara að skipa starfshóp til að skoða hatursorðræðu í samfélaginu. Og þó svo að það hafi ekki komist inn í þetta ákveðna frumvarp er það von mín að við fáum tillögur frá þeim starfshópi sem fyrst um hvað megi bæta til að tryggja að verið sé að ráðast á það þjóðfélagsmein sem hatursorðræða er. Ég veit að við sem hér inni sitjum erum tilbúin að taka þátt í þeirri baráttu því að sum okkar geta lent í því að verða fyrir slíkri hatursorðræðu.

Ég ætla að endurtaka það sem var sagt hér áðan: Það er mikil von mín að atkvæðagreiðsla í þessu máli verði sett sem fyrst á dagskrá og að önnur mál sem við höfum verið að klára hér 2. umr. um komist fljótt til 3. umr. og atkvæðagreiðslu.