152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

evrópskir áhættufjármagnssjóðir og evrópskir félagslegir framtakssjóðir.

244. mál
[23:19]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um evrópska áhættufjármagnssjóði og evrópska félagslega framtakssjóði frá efnahags- og viðskiptanefnd.

Helstu atriði frumvarpsins eru eftirfarandi: Lagt er til að innleidd verði í íslenskan rétt ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins um evrópska áhættufjármagnssjóði (ESB) nr. 345/2013 frá 17. apríl 2013, og um evrópska félagslega framtakssjóði frá 17. apríl 2013, nr. 346/2013.

Með gerðunum er kveðið á um skilyrði sem rekstraraðilar þurfa að uppfylla vilji þeir við markaðssetningu sérhæfðra sjóða innan EES nota heitið EuVECA yfir viðurkennda áhættufjármagnssjóði og EuSEF yfir viðurkennda félagslega framtakssjóði. Þau skilyrði varða m.a. samsetningu eignasafns, þ.e. fjárfestingarheimildir sjóðanna, fjárfestingarmarkmið og flokka fjárfesta sem eru hæfir til að fjárfesta í þeim.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Í umsögn Seðlabanka Íslands eru lagðar til breytingar sem eru tæknilegs eðlis. Nefndin óskaði eftir afstöðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins til umsagnarinnar. Nefndin leggur til breytingar í samræmi við umsögn Seðlabanka Íslands og tillögur í minnisblaði ráðuneytisins. Auk nokkurra annarra tæknilegra breytinga leggur nefndin til að gildistaka frumvarpsins miðist við 1. júlí árið 2022. Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem nefndin leggur til í áliti sínu, enda er þetta frumvarp til bóta.

Undir nefndarálitið rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eva Dögg Davíðsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Jóhann Páll Jóhannsson.

Í nefndarálitinu leggur nefndin fram breytingartillögu á þskj. 657 um frumvarp til laga um evrópskra áhættufjármagnssjóði og evrópska félagslega framtakssjóði. Af augljósum ástæðum er ljóst að gildistaka frumvarpsins getur ekki orðið afturvirk, eins og lagt er til í frumvarpinu, heldur miðast gildistakan við 1. júlí 2022.