Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

lýsing verðbréfa o.fl.

385. mál
[23:26]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði, nr. 14/2020, og lögum um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, nr. 20/2021 (ESB-endurbótalýsing o.fl.). Nefndarálitið er frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Helstu atriði frumvarpsins eru eftirfarandi: Frumvarpið kveður á um breytingar á lögum um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði til innleiðingar á reglugerð ESB. Tvær meginbreytingar felast í reglugerðinni. Annars vegar er hámarksundanþága lánastofnana frá skyldunni um að birta lýsingu ef um er að ræða útboð eða ef verðbréf, sem ekki eru hlutabréfatengd og sem gefin eru út, eru tekin til viðskipta á skipulegum markaði samfellt og endurtekið, hækkuð úr 75 milljónum evra í 150 milljónir evra á 12 mánaða tímabili. Hækkuninni er ætlað að gefa lánastofnunum svigrúm til að styðja við fyrirtæki sem þurfa á fjármögnun að halda vegna efnahagsáhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Hins vegar kveður reglugerðin á um nýtt tímabundið og styttra form lýsingar, svokallaða ESB-endurbótalýsingu, til fyllingar við áður útgefnar lýsingar. Endurbótalýsingunni er ætlað að auðvelda endurfjármögnun í kjölfar heimsfaraldursins samhliða því að tryggja að kröfum um samræmda, einfalda og auðskiljanlega upplýsingagjöf sé fullnægt. Samkvæmt reglugerðinni fellur heimild til að notast við endurbótalýsingu ESB og hámarksundanþáguna úr gildi 31. desember 2022.

Loks kveður frumvarpið á um breytingu á lögum um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, nr. 20/2021, sem ætlað er að tryggja að hugtakanotkun og vísanir á milli laga samræmist lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.

Nefndin fjallaði um málið og fékk fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins á sinn fund.

Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Diljá Mist Einarsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Kristín Hermannsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.