152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

móttaka flóttamanna.

[15:05]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Nú bíða margir flóttamenn milli vonar og ótta og fylgjast með skeytasendingum á milli einstakra ráðherra. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur lýst sig ósammála stefnumótun og aðferðum hæstv. dómsmálaráðherra, sem er vissulega gott, en mig langar að vita hvað táknar í raun. Flokkur forsætisráðherra, VG, getur ekki skorast undan ábyrgð á störfum dómsmálaráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra ber sem slíkur líka ábyrgð á aðbúnaði og aðstæðum flóttamanna hér á landi og þar má nú heldur betur ýmislegt betur fara.

Um helgina var hægt að lesa í Fréttablaðinu viðtal við úkraínska konu sem sagði aðstæður fjölskyldu sinnar ömurlegar. Henni var gert að flytja með skömmum fyrirvara upp á Ásbrú en foreldrar hennar voru sendir að Bifröst. Það fer ekki hjá því að maður blygðist sín örlítið yfir því að vera Íslendingur við að lesa um móttökurnar sem þessi úkraínska fjölskylda úr stríðshrjáðu landi fær. Konan lýsir óboðlegri framkomu Útlendingastofnunar og segir frá því hvernig fjölskyldan fékk ekki rúmföt, engin eldhúsáhöld, ekki potta eða pönnur en eitt glas til að deila, auk þess sem langt er í alla þjónustu. Þess er auðvitað varla að vænta að flóttafólk úr öðrum heimshornum mæti sérstaklega betra atlæti en hér er lýst.

Frú forseti. Ég geri mér vel grein fyrir því að hæstv. ráðherrar geta ekki sjálfir staðið í að útvega fólki lágmarkseldhúsáhöld. En ég spyr: Er hæstv. forsætisráðherra ekki sammála mér um að betur megi gera en hér er lýst? Er hún ekki sammála því að stjórnvöld setja tóninn í samskiptum við fólk sem hingað leitar? Og að lokum: Er hæstv. forsætisráðherra sammála andstöðu félagsmálaráðherra við áform dómsmálaráðherra um stórfelldan brottflutning fólks héðan. Og ef svo er, fylgja einhver verk?