152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

móttaka flóttamanna.

[15:10]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það er mjög sérstakt ástand uppi í heiminum. Það er stríð víða, í Sýrlandi t.d. Engu að síður sjáum við að fólk frá einstökum löndum á af einhverjum ástæðum greiða leið hingað inn, frá Venesúela t.d. miðað við Sýrland. Mig langar að spyrja hversu mörgum kvótaflóttamönnum við höfum boðið hingað til lands. Ég held að á síðasta ári hafi þeir ekki verið nema 34. Hæstv. forsætisráðherra hefur talað á síðustu dögum um að það vanti heildarstefnumótun í málefnum flóttamanna. Hún hefur verið forsætisráðherra þessarar ríkisstjórnar fimm síðustu ár. Og hvar er sú heildarstefnumótun? Ég þekki þó að haustið 2017 tók hún, ásamt formönnum allra flokka á þingi nema Sjálfstæðisflokks, þátt í að skrifa undir plagg um að endurskoðun og heildarstefnumótun þessara hluta yrði sett á dagskrá. En hvað gerist? Hæstv. forsætisráðherra myndar í tvígang ríkisstjórn þar sem dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins fer með öll völd.