152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

móttaka flóttamanna.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Þá komum við að því hvað varðar heildarstefnuna. Nú er það svo á Íslandi, og ég bendi á, að hér hefur mikill fjöldi fólks fengið alþjóðlega vernd á undanförnum árum. Ég get líka bent á að innflytjendur eru hér fjölmennir. Hlutfall útlendinga er hátt í 20% á Íslandi og atvinnuþátttaka þeirra er há. Það eru hins vegar ýmsar aðrar áskoranir, ég get nefnt til að mynda menntun þeirra sem hingað koma. Við þurfum að huga miklu betur að þeim málum og það er það sem ég hef kallað eftir í ræðu um heildarstefnumótun, að við séum ekki bara að horfa á verndarkerfið, sem er mjög mikilvægt, heldur að við ræðum líka málefni útlendinga almennt.

Í stjórnarsáttmála er sérstaklega fjallað um samspil atvinnu- og dvalarleyfa og ég vil segja það hér að vissulega hefði meira mátt gerast í þeim málum fyrr. En ég legg á það mjög mikla áherslu að félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og dómsmálaráðuneyti vinni saman að því, ásamt aðilum vinnumarkaðarins og öðrum aðilum úr háskólasamfélaginu, að setja af stað vinnu sem greiðir fyrir því að hér verði hægt að sækja um atvinnuleyfi, eins og ég hef þóst lesa úr orðum fólks að sé mikill vilji til að gera hér á þingi, að það verði gert í sátt við aðila vinnumarkaðarins og að við mörkum þá stefnu að við séum ekki bara að taka á móti fleirum heldur að við séum að gera það vel og tryggja um leið góðar aðstæður fyrir öll þau sem hingað koma.