152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

skattlagning séreignarsparnaðar.

[15:36]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Grein dr. Ólafs Ísleifssonar, fyrrverandi hv. þingmanns, um skattlagningu séreignarsparnaðar sem birtist í Morgunblaðinu í liðinni viku vakti mikla og verðskuldaða athygli. Í greininni dregur Ólafur fram að skattlagning séreignarsparnaðar felur í sér að skattleggja fjármunaeign eins og hún væri tekjur, eign sem erfist og er varin fyrir kröfuhöfum. Skattlagning þessara eigna miðast við þrjú þrep tekjuskatts. Fjármunaeignir bera 22% fjármagnstekjuskatt. Með óhóflegri skattlagningu er gengið nærri eignum eldri borgara en séreignarsparnaðurinn er laus til útborgunar eftir að 60 ára aldri er náð. Ólafur vekur athygli á því í grein sinni að greiðendum skattsins er mismunað því þeir falla eftir tekjum í þrjá flokka og við bætist sá fjórði í ljósi þess að þeir falla undir ákvæðið um fyrstu kaup íbúða og greiða engan skatt upp að vissu marki. Þessi mismunun verður Ólafi tilefni til að spyrja í grein sinni, með leyfi forseta, hvort jafnræðisregla stjórnarskrár eigi ekki við nema stundum.

Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra um viðhorf ráðherrans til þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið rakin; ofsköttun í ljósi þess að eignir eru skattlagðar eins og tekjur sem þær eru ekki og mismunun milli greiðenda. Loks vil ég spyrja hæstv. ráðherra um þann þátt í grein Ólafs þar sem dregið er fram að skattafslættir skapa almennt ekki skattkröfur síðar og eru nefnd skýr dæmi um það í greininni. Undantekningin sýnist vera eldri borgarar, 60 ára og eldri, sem lagt hafa fyrir með séreignarsparnaði til efri ára til að mæta óvæntum áföllum eða eftir atvikum til annarra þarfa. Ýmsir myndu telja að komið væri aftan að þeim með þeirri ofurskattlagningu sem raun ber vitni. Hver eru viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við þessum sjónarmiðum?