152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

skattlagning séreignarsparnaðar.

[15:41]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin svo langt sem þau náðu og skora á hana að lesa frábæra grein Ólafs Ísleifssonar. Í þeirri grein dregur hann fram ágalla á skattaframkvæmd þegar kemur að skattlagningu séreignarsparnaðar, ofsköttun og mismunun milli greiðenda þvert á jafnræðisreglu. Hér er ekki, eins og Ólafur segir í grein sinni, við Skattinn að sakast heldur stjórnvöld í ljósi ákvæða í lögum um tekjuskatt.

Ég spyr því ráðherrann, sem getur kannski svarað betur eftir að hún hefur lesið þessa fínu grein: Hvaða áform hefur hæstv. ráðherra um að ráða bót á þessum alvarlega misbresti í skattlagningu séreignarsparnaðar þar sem fólk, 60 ára og eldra, sýnist sæta afarkjörum á ómálefnalegum grundvelli? Hver eru áform hæstv. ráðherra til að bæta úr skák og fella skattlagningu á séreignarsparnaði sem fjáreign í eðlilegan farveg sem samrýmist sjónarmiðum um réttláta og sanngjarna skattlagningu íslenskra skattalaga um ólíka skattalega meðferð tekna og eigna?