152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[16:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóða flutningsræðu. Mér fannst hún skýra margt, m.a. þá spurningu sem ég ætlaði að bera upp við hæstv. ráðherra en í grunninn á þetta mál rætur að rekja til samninganna 2016. Síðan er áskorun sem kemur frá aðilum vinnumarkaðarins 2019 og það er fyrst núna sem við erum að fá málið í gegn. Ef ég hef misskilið hæstv. ráðherra leiðréttir hann mig en þetta er þá fyrst og fremst togstreita milli opinbera vinnumarkaðarins og hinna á markaði. Það væri gott ef ég yrði leiðrétt ef ég skil þetta ekki rétt. Síðan er hitt að ég tel eindregið og styð ráðherra í því að það sé brýnt að fara í heildarendurskoðun á kerfinu og einmitt að við séum ekki að þvæla inn í þetta mál ýmsum öðrum atriðum sem nauðsynlegt er að ræða og fara yfir og ráðherra snerti m.a. á í ræðu sinni. Þannig að ég styð þá leið. (Forseti hringir.) En ég vil einfaldlega fá svar við því af hverju þetta hefur dregist (Forseti hringir.) svona von úr viti. Það eru sex ár síðan (Forseti hringir.) upphaflega var lagt upp með þessa tölu.