152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[16:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi athugasemdir opinbera geirans þá kannski lutu þær fyrst og fremst að því að með því að lögfesta tilgreindu séreignina þá væri erfitt fyrir opinberu aðilana að fara ekki í að breyta sínum samþykktum og bjóða upp á sambærilegt fyrirkomulag sem hefði þá haft ákveðin afleidd áhrif á samsetningu réttindanna, sérstaklega hvað varðar hversu hátt hlutfallið er inni í samtryggingunni. Hér erum við að leggja upp með að þetta sé heimildarákvæði og það losar aðeins um spennuna hvað þetta snertir, skilur allt galopið eftir fyrir sjóðina til að taka upp þennan nýja réttindaflokk sem hægt er þá að nota til að létta sér íbúðarkaup, svo dæmi sé tekið, og ætti eitthvað að draga úr þessum athugasemdum. En hér eru bara nokkrir heimar — sumir vilja bara eitt kerfi fyrir alla með sams konar réttindauppbyggingu fyrir alla og aðrir eru fyrir meira frelsi.