152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[17:09]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að koma og leggja nokkur orð í belg um þetta mál áður en það fer til nefndar af því að ég held að það sé mjög mikilvægt að nefndarmenn hafi í huga nokkur áhrif af þessu frumvarpi og ræði þau vandlega sín á milli. Mig langar fyrst að koma inn á það sem nokkrir þingmenn hafa talað um hér, nú síðast hv. þm. Guðbrandur Einarsson en einnig samflokkskona mín, og það er hvert markmiðið er til framtíðar í kerfunum okkar. Við horfum náttúrlega á lífeyriskerfin sem ákveðna samtryggingu og sameign og þarna er verið að taka þá ákvörðun, eins og margir hafa bent á, að stækkunin á kerfinu feli ekki í sér aukna samtryggingu eða að því hlutfalli verði haldið heldur að vægi séreignar aukist.

Eins og ég skil þetta á þessum tímapunkti þá eru tveir þættir sem vekja fyrst og fremst athygli mína. Annars vegar er það hlutur sem hægt væri að hugsa á mjög jákvæðan hátt. Hér sjáum við til að mynda hóp fólks sem áður gat ekki tekið þátt í ýmsum ívilnunum sem séreignarkerfið fól í sér vegna þess að tekjulágt fólk og fólk sem munar um aukaprósentu í hverjum mánuði leggur einfaldlega ekki inn í séreign. Þar erum við með alls konar ívilnandi úrræði á vegum stjórnvalda, til að mynda möguleikann á að leggja inn á húsnæðislán, þennan erfanleika lífeyrisréttinda og skerðingarþætti. Það má í rauninni segja að ef maður horfir á málið út frá þessu sjónarmiði sé það jákvætt, að það séu ákveðnir aðilar sem gætu sjálfkrafa fallið inn í þetta séreignarúrræði án þess að þurfa sjálfir að fara í mótframlag. En það er auðvitað, eins og hv. þm. Guðbrandur Einarsson kom inn á áðan, að því gefnu að þeim verði ráðlagt að fara þessa leið með sparnað sinn vegna þess að við erum líka með ákveðna aðila innan kerfisins sem eðli málsins samkvæmt má frekar sjá fyrir sér að þurfi þá vernd sem felst í aukinni samtryggingu. Spurningin er náttúrlega hvort þau nýti sér þessi úrræði. En auðvitað er jákvætt ef þetta felur í sér að það eru ákveðnir aðilar sem fá þarna tækifæri til að taka þátt í þessum ívilnandi þáttum stjórnvalda. Það er síðan önnur umræða hvort þau ívilnandi úrræði eigi við og ég ætla að koma aðeins að því á eftir.

Síðan er það hitt sem ég kom aðeins inn á í byrjun og það er að svara þeim spurningum og velta því upp í nefndinni hvaða áhrif það hefur að við sjáum aukið vægi séreignar á móti sameign eða samtryggingu þegar við vitum að lífeyrissjóðakerfin eru á mjög sérstökum stað varðandi framtíðarþróun. Við vitum að það er óljóst hver nákvæmlega greiðslugetan verður í framtíðinni. Hér hefur komið upp sú umræða, og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á það, að það væru einstaklingar sem væru hálfpartinn að oftryggja sig í kerfunum og því þyrfti að bregðast við með því að auka frelsi fólks. Þá veltir maður að sjálfsögðu fyrir sér: Ef við erum komin á þann stað sem samfélag að það eru ákveðnir hópar hér sem geta oftryggt sig á meðan aðrir geta varla lifað af lífeyrissparnaði sínum, meira að segja þeir sem leggja í sjóðsöfnunarkerfi okkar, er þá ekki eitthvað að? Auðvitað skil ég alveg það sjónarmið að fólki finnist eðlilegt að það hafi unnið sér inn fyrir hinu og þessu og það eigi að vera eitthvert frelsi. En lífeyrissjóðakerfið okkar var ekki byggt upp þannig. Það átti að vera samtrygging. Ég held að svarið við þeirri spurningu hvað við gerum ef fólk er komið með það mikið af peningum í lífeyrissjóð að það veit ekki hvað það á að gera við þá og hvort við eigum að breyta einhvern veginn samsetningu kvótakerfisins og hvort þetta sé í rauninni réttari leiðin — sú spurning sem þarf að varpa upp er: Er hægt að spara sig til að mynda frá þeim vanda sem er að koma upp í fjármögnun á lífeyrissjóðakerfinu? Við vitum að það eru ákveðnar kynslóðir og ákveðnir hópar sem munu mögulega lenda í því að greiðslugeta hjá ákveðnum sjóðum verði ekki jafn mikil og hún er í dag. Er þá eðlilegt að sjá aðra einstaklinga sem eru búnir að koma sér upp hliðarkerfi hvað það varðar, út frá líka skattfrelsissjónarmiði, vegna þess að það er auðvitað það sem þessi sparnaður er umfram það sem fer inn á bankabók?

Þetta er mjög pólitískt mál. Þetta er ekki eitthvert teknókratískt mál sem fæðist bara þarna í þessari umræðu milli verkalýðshreyfingar og stjórnvalda og atvinnurekenda, þó að auðvitað sé pólitík þar á borðinu. Þetta er grundvallarbreyting og hana þarf að ræða í nefndinni og auðvitað er vettvangur hér í þinginu.

Svo langaði mig til þess að velta upp umræðunni um þessar húsnæðisívilnanir. Hæstv. fjármálaráðherra kom upp áðan og talaði um að hér væri, ef ég er að fara rétt með mál, fyrst og fremst verið að sníða þetta úrræði að fyrstu kaupum á íbúðamarkaði. Ég myndi vilja að það ætti sér stað umræða í nefndinni um hver sýn ríkisstjórnarinnar er í þessum málaflokki, í húsnæðismálum. Það er mjög stór ákvörðun að halda áfram með það úrræði að greiða inn á fyrstu kaup eða inn húsnæðislán sitt í gegnum skattaívilnun því að þarna eru áhrif á lífeyrissparnað fólks, vegna þess að þetta er ekki ókeypis peningur heldur kemur hann vissulega úr lífeyrissparnaði fólks. En síðan er það líka þannig að snilldin við þetta úrræði hingað til í þessari ríkisstjórn hefur náttúrlega verið sú að kostnaðurinn af þessari skattaívilnun hefur ekki fallið til á tíma þessarar ríkisstjórnar. Hann fellur til eftir tugi ára hjá sumum einstaklingum og hann fellur til hjá framtíðarkynslóðum sem munu þá líka þurfa að eiga við vanfjármagnað lífeyriskerfi og auknar skuldbindingar þegar kemur að velferðinni okkar. Það hefur komið út úttekt á þessu sem Alþýðusambandið vakti athygli á þar sem kom í ljós að á undanförnum fimm, sex árum hafa verið veittir 30 milljarðar í skattafslátt út af þessu úrræði. Meiri hlutinn af því rann til tekjuhæstu 30% í landinu, u.þ.b. helmingurinn til tekjuhæstu 10% í landinu.

Eins og ég sagði í upphafi mætti mögulega gefa sér að með þessu úrræði sé verið að auka á svigrúm tekjulægri einstaklinga sem hingað til hafa ekki leyft sér að leggja fyrir í séreign til þess að nota þetta úrræði og að því leytinu til má kalla það jákvætt. En þetta er bara mjög stór ákvörðun vegna þess að miðað við úrræðin sem er rætt um í greinargerðinni í frumvarpinu þá er verið að tala um að þetta gætu verið 1–2 milljarðar á ári. Undanfarin ár hafa þetta verið um 5 milljarðar í skattafslátt, þetta úrræði. Það eru háar upphæðir í þessu samhengi. Þannig að þetta er ekki bara einhver pennastriksákvörðun. Þetta er mjög stór ákvörðun.

Það sem er líka mikilvægt að hafa í huga almennt er hvort þessi aðgerð núna festi einhvern veginn þetta úrræði í sessi. Það hefur hingað til verið talað um að þetta sé tímabundin ráðstöfun og það sé pólitískt erfitt, og það vita allir, að afnema hana vegna þess að hún er vinsæl. En þetta er mjög ómarkviss stuðningur. Þetta er stuðningur sem hefur að hluta til ýtt undir þenslu á markaðnum vegna þess að þetta er innspýting í eigið fé og þetta er innspýting í eigið fé á mjög ómarkvissum stöðum. Ég ítreka þess vegna að ég held að nefndin þurfi að ræða hvort hér sé verið að festa í sessi úrræði sem er ómarkvisst. Ríkisstjórnin er með nýtilkynntar tillögur um húsnæðismál og húsnæðisstefnu og það er ekki mikið talað um þetta úrræði. Það er talað um aðkomu hins opinbera að uppbyggingu á félagslegu húsnæði. Það er verið að fara þá leið að reyna að gera aðgengi auðveldara í staðinn fyrir að fara í þessa skattafslætti sem renna hlutfallslega meira til tekjuhæstu einstaklingana í landinu og eru þensluhvetjandi. Ég hef smá áhyggjur af þessu.

Ég veit að þetta er erfið umræða fyrir þingheim að taka vegna þess að afslátturinn liggur á þeim stað í samfélaginu að fólki finnst viðkvæmt að ræða þetta en við þurfum sem samfélag að þora að taka þessa umræðu. Við erum að horfa upp á það að við erum búin að ráðast í almennar skattalækkanir undanfarin ár sem eru farnir að grafa undan velferðarkerfinu okkar. Þarna erum við að tala um 30 milljarða tekjutap í framtíðinni, gegn framtíðarkynslóðum sem nú þegar eru að fara að líða fyrir skort á innviðafjárfestingum. Við erum búin að ráðast í almennar skattalækkanir sem hafa grafið undan tekjugrunni ríkissjóðs um tugi milljarða króna á undanförnum árum. Þetta er það sem ég myndi vilja kalla hina þöglu veikingu á bolmagni ríkissjóðs til að sinna samfélaginu. Ég held að það þurfi alvarlega að ræða og þora að taka umræðuna um hvað við erum raunverulega að gera hér og treysta á það að samfélagið í heild og þjóðin og meira að segja einstaklingar sem njóta góðs af þessu úrræði skilji sinn stað í samfélaginu og hvers konar samfélag við viljum búa í. Þeir geta heldur ekki treyst á að börnin þeirra hafi aðgang að þessu kerfi. Þetta snýst ekki bara um einstaklingshyggju, um hvað hentar okkur núna. Þetta eru dýr úrræði fyrir stóran hóp, fyrir háar upphæðir, og það þarf bara að ræða þetta í því samhengi hvort við séum að festa þessa almennu skattalækkun í sessi.

Þetta eru þeir punktar sem ég tók einna helst eftir við fyrstu sýn, þ.e. húsnæðismálin, hvernig þetta spilar inn í þær húsnæðismálatillögur sem ríkisstjórnin er með og tekjuáhrifin fyrir ríkissjóð almennt af svona úrræði en líka sérstaklega í þessu tilviki.

Síðan þarf auðvitað að tala almennt í þessari nefnd og á þingi um hvernig við viljum sjá samtrygginguna og sameignina þróast á næstu árum á meðan við tökumst á við lýðfræðilegar og efnahagslegar áskoranir. Er þetta þróunin sem við viljum sjá, að við förum úr almennum tryggingarsjóðum í sértæka, að það sé hægt að fjárfesta sig frá stórum áskorunum?

Ég velti líka upp og hvet nefndina til að skoða að það er búið að breyta hér úrræði, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir minntist á áðan, þannig að ekki er lengur skylda að lífeyrisþegar taki þessa tilgreindu séreign heldur er það heimilt. Það á eftir að vera mjög misjafnt eftir sjóðum hvað þeir vilja nýta. Sjóðirnir eru með mismunandi stefnu, hvað þeir vilja standa fyrir og hver þeirra yfirlýst markmið eru. Við þurfum að velta fyrir okkur hvaða áhrif þetta gæti haft á skiptingu milli sjóða. Munu þeir sem hafa meira fjárhagslegt bolmagn í auknum mæli sameinast í ákveðna sjóði? Hvað þýðir það fyrir samtrygginguna í heild sinni? Við vitum að til að fá alvörusamtryggingu í svona sjóði þarf fólk með ólíkan bakgrunn inn í samtryggingarkerfin. Auðvitað er hún að einhverju leyti misjöfn eftir ákveðnum sjóðum en við vitum öll að veikindi og áföll og þess háttar falla hlutfallslega meira á fólk í ákveðnum stéttum og á ákveðnum tekjustigum. Þetta snýst líka um aldursdreifingu og þess háttar. Því þarf einnig að velta fyrir sér. Verður bara aukin misskipting milli sjóða? Þá er samtryggingin fokin út um gluggann af því að áfalladreifing felst í því að vera með fólk með mismunandi bakgrunn í svona sjóðum.

Einföldun á kerfum er ekkert alltaf það besta. Ég get alveg skilið þau sjónarmið og þau eiga oft við. Við sem þjóð höfum færni og getu og erum með nógu sterka samfélagslega innviði til að vera með flókin kerfi og við eigum að gera það ef það er möguleiki. En í almennri umræðu varðandi skatta og gjöld þar sem allt á að vera flatt þá eru þróunarríki sem eru með svo vanstillta innviði að þau þurfa að fara í flatan skatt og gjöld, vegna þess að þau ráða ekki við sértæk úrræði. Þannig að oft getur verið gott að hafa hlutina flókna ef við getum það en í sumum tilvikum er ekki gott þegar farið er frá einföldunarkerfunum, eins og var hugmyndin með þessu úrræði og við erum einhvern veginn komin út í flókna útgáfu af því. Þá erum við búin að taka andann út úr þessum kerfum. Andinn var samtryggingin. Andinn var að allir hefðu jafnan aðgang að þessum úrræðum. Það er ekki það að allir séu með jafna útkomu eins og oft hefur verið að talað um. Við jafnaðarmenn erum ekkert á því að allir þurfi að vera með jafna útkomu í lífinu, en jöfn tækifæri eru mjög víða til umræðu og þetta er eitt þeirra mála.

Nú sit ég ekki sjálf í nefndinni en ég hvet nefndarmenn til að velta upp þessum pólitísku spurningum. Þær eru mjög stórar og þetta er mjög stór breyting á þessu máli. Þrátt fyrir að það sé margt mjög jákvætt hérna þá er þetta hápólitískt mál.