152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[17:28]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þingmaður nefnir hér Íbúðalánasjóð og stöðu Íbúðalánasjóðs, sem er í raun og veru gjaldþrota og miklu meira en það. Ætli neikvæð staða Íbúðalánasjóðs sé ekki í kringum 300 milljarða eða u.þ.b.? Maður veltir því fyrir sér bara í sögulegu samhengi, og til að leyfa mér að hnýta í pólitíkusa fortíðarinnar, að hæstv. fjármálaráðherra nefnir hér í pontu að unga fólkið okkar sé núna að fjármagna lífeyriskerfi opinberra starfsmanna á sama tíma og það er sjálft að borga í lífeyrissjóð og kaupa sér húsnæði. Er ekki raunin sú að hér sinntu pólitíkusar ekki hlutverki sínu? Þeir greiddu ekki á hverju ári inn í lífeyrissjóði eins og þeim bar og við erum að setja þetta á börnin okkar, þau eiga að sjá til þess að borga þessa skuld.