152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[17:30]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það var eitt sem ég tók eftir í ræðunni og það var að hv. þingmaður talaði um að við værum að taka fjárfestingar einnar kynslóðar í lífeyrisréttindum og flytja þær yfir í húsnæðiskerfið. Með því að leyfa fólki að taka út séreignarsparnaðinn sinn og nota hann til húsnæðiskaupa erum við að sjálfsögðu að takmarka eða lækka það sem það á þegar það síðan byrjar að taka lífeyri. Ég gerði smá reikning á meðalávöxtun síðastliðinna tíu ára hjá séreignarsjóðum á Íslandi og á 40 árum erum við að tala um að sá peningur sem er lagður inn hann fimmtánfaldast u.þ.b. Ef ég set inn milljón núna er það um 15 millj. kr. virði eftir 40 ár. Þetta er náttúrlega bara þetta gamla góða „vextir og vaxtavextir“ og hvernig það þróast allt saman. Þegar við erum að láta ungt fólk taka peninga út úr þessum sparnaði svona snemma til að geta keypt sér hús þá erum við svo sannarlega að lækka það sem þau hafa til að nýta þegar þau fara á ellilífeyri. Eitt sem stundum er bent á er hvort betra sé að festa þennan pening í húsnæði, í steypu, þannig að í rauninni fái fólk álíka eða jafn góða ávöxtun. Þar sem hv. þingmaður er mikill hagfræðingur þá langaði mig að spyrja um þetta.