152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[17:33]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Við hljótum að þurfa að svara grundvallarspurningu á tveimur mínútum sem er: Hver er tilgangur lífsins? Og af hverju er fólk að reyna að kaupa sér húsnæði? Er það vegna þess að það er í samkeppni um ávöxtun? Er allt orðið þannig í heiminum hérna að þetta snýst allt um ávöxtun? Þetta er samt mjög skiljanleg spurning vegna þess að þetta er valið sem venjulegt fólk stendur frammi fyrir í dag. Það horfir á húsnæðisverð hækka og hækka og það er búið að selja öllum þá hugmynd að þetta sé besta fjárfesting sem það geti átt, ekki bara fyrir húsnæði og heimili heldur líka til að geta selt og losað um fé. Og þess vegna erum við komin í þá stöðu að ígildi 67% af húsnæði sem hefur verið byggt á undanförnum árum hefur farið til fólks sem býr ekki sjálft í eignunum. Grundvallarhlutverk hins opinbera á að vera að tryggja fólki aðgang að grunnþörfum, grunnþarfir eru m.a. húsaskjól, og það eru margar aðrar leiðir til að gera það. En að „proppa“ upp og þenja almennan markað með því að taka út skattívilnanir þvert á tekjustigann, þvert á þörf fólks, dæla því inn á markaðinn — ríkið gæti komið að á svo mörgum öðrum stöðum; að opinberri uppbyggingu, að lagasetningu og regluverki þegar kemur að því að halda mörgum íbúðum í einu, að við hættum bara yfir höfuð að horfa á heimili fólks sem fjárfestingarvöru. Ég held að það sé vandinn sem við erum í í dag. En það er svo ótrúlega skiljanlegt að einstaklingar hugsi: Hvað með mig? Hvað er rétta viðskiptalega ákvörðunin sem ég á að taka? Og þess vegna skil ég alla sem vilja nýta þetta úrræði. En hið opinbera gegnir því hlutverki að stilla strengi þannig að við sem einstaklingar högum okkur á þann hátt að samfélagið í heild fúnkeri. Þetta er stóra pólitíska spurningin hér inni.