152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[17:40]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að veita mér lagatæknilega spurningu. Ég verð bara að viðurkenna að ég hafði ekki áttað mig á þeirri sérstöku stöðu að það sé ekki val í upphafi hvert tilgreinda séreignin er greidd og ef það er þannig þá finnst mér þetta alveg eðlileg spurning. Ef fólk er á annað borð mögulega að fara að breyta því hvar það er með sparnað sinn í stýringu eða vörslu, að það sé ekki verið að ofrukka neytendur þessarar þjónustu sem eru í rauninni eins og þú segir að greiða lögbundin gjöld þarna inn — mér finnst það klárlega eitt af þeim atriðum sem þarf að ræða í þessu samhengi.

Varðandi hvenær á að hefja útgreiðsluna þá er minn skilningur á þessu frumvarpi að við séum bara að tala um lífeyrissparnað og eðli lífeyrissparnaðar er að hann er skattfrjáls þegar þú leggur hann inn vegna þess að þá geturðu fengið ávöxtun á skattfrjálsa upphæð sem gerir það að verkum að vaxtavextir af sparnaðinum verða umtalsvert meiri, þú nærð meiri upphæð út úr þessu. En þetta er auðvitað ekki það sem þú færð með almennan sparnað. Mér finnst ekki sjálfgefið þegar þú ert að fá þessa skattaívilnun að þú getir bara farið með þetta eins og almennan sparnað og tekið það út í rauninni hvenær sem er. Þannig horfi ég á þetta. Það er munur á þessari ráðstöfun og því að fólk sé einfaldlega að leggja til hliðar nokkrar auka milljónir í sparnað yfir eitthvert tímabil. Þetta var alla vega ekki eitthvað sem angraði mig við fyrsta yfirlestur. En ég skal viðurkenna að ég er ekki með smáatriðin á bak við það hvernig þetta frumvarp þróaðist.