Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[17:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Fyrst örstutt út af andsvörunum: Það skiptir engu máli hvort skatturinn er tekinn af fyrir eða eftir ávöxtun, það munar engu hvort þú tekur upprunalegu 100 kr., margfaldar með 10% á hverju ári og tekur síðan skattinn, þá er verið að taka skatt af hærri prósentu og í rauninni öllum hækkunum. En ef þú tekur skattinn fyrst af og tekur síðan hækkunina þá endar það í sömu tölu, skiptir ekki máli. Bara hafa það á hreinu að þetta er kannski einföldun þegar verið er að greiða ákveðin laun og þá fer það bara í gegnum sama skattafyrirkomulag en ekki — já, alla vega, þetta var vesen.

Að þessu umræðuefni hérna um lífeyrissjóðina. Ég hef fjallað aðeins um það áður sem mér finnst nauðsynlegt að fólk hafi í huga þegar verið er að afgreiða mál af þessu tagi, varðandi séreignina sérstaklega og heimildina til að nýta hana til stuðnings kaupum á fyrstu íbúð.

Hér eru nokkur atriði sem þarf að huga að, í fyrsta lagi varðandi húsnæðismarkaðinn almennt og hvernig séreignin skiptist á mismunandi tekjuhópa, eins og hefur komið fram hérna í umræðunni, sem ég tek heils hugar undir að þarf að vera mjög skýrt og greinilegt, vegna þess að það sem er eiginlega aldrei sagt varðandi lífeyriskerfið, ég hef ekki heyrt marga aðra en sjálfan mig tala um það hérna, að helmingurinn af lífeyriskerfinu er hannaður þannig að fólk sé skuldlaust með skuldlaust þak yfir höfuðið þegar það hefur töku lífeyris, af því að framfærslan af lífeyrissjóðakerfinu gerir ekkert sérstaklega ráð fyrir því að fólk geti greitt af afborgunum eða leigu af húsnæði á þeirri framfærslu. Það er rosalega mikilvægt að skilja þetta í samhengi við það hvernig lífeyrissjóðakerfið er hannað. Ef fólk er enn þá að borga 200.000 kr. í leigu á hverjum mánuði þegar það fer á lífeyri þá er enginn lífeyrir eftir. Ef það er ekki að borga 200.000 kr. í leigu eða af láni þá er lífeyririnn — það munar þó nokkuð miklu þar um.

Ég vil halda því til haga í þessari umræðu og í allri umræðu um lífeyrissjóðakerfið hversu mikilvægur þessi hluti lífeyrissjóðakerfisins er og hvað hann þýðir í rauninni í samhengi við það sem við setjum upp hérna sem samfélag varðandi aðgengi að húsnæði og þess háttar. Það þýðir einfaldlega að séreignarstefnan er innbyggð í lífeyriskerfið. Það gerir ekki ráð fyrir því að það sé einhver húsnæðismarkaður o.s.frv., nema það er kannski reynt að troða inn einhverjum húsnæðisbótum og þess háttar sem eru með skerðingum og alls konar dóti og duga aldrei fyrir leigu í hverjum mánuði, ekki séns, nema kannski í einhverju rosalega niðurgreiddu húsnæði, sem er þá aftur vesen út af fyrir sig. Þetta þýðir í rauninni að það er engin heildstæð stefna um það hvernig við hefjum lífið og endum það með tilliti til þess hvaða laun þarf að hafa til að ná þessum markmiðum sem lífeyrissjóðakerfið hefur, að eiga skuldlaust þak yfir höfuðið fyrir töku lífeyris. Ná öryrkjar því? Ekki séns, myndi ég giska á, ekki séns. Hvaða tekjuviðmið, í rauninni tekjuþróun, er lágmarkið til þess að ná því að eiga skuldlaust þak yfir höfuð fyrir töku lífeyris óháð staðsetningu á landinu? Það á ekki að þurfa að skipta máli, að fólk á ekki að þurfa að velja að búa á ódýrara svæði til að geta uppfyllt þessi skilyrði. Fólk ætti að sjálfsögðu að geta valið sér búsetu.

Þannig að þegar við ræðum lífeyrissjóðakerfið í heild sinni þá þarf að taka tillit til þessa þáttar því að hann hefur áhrif á allt annað. Hann hefur áhrif á skipulagningu hins opinbera, að byggja félagslegt íbúðakerfi. Það hefur áhrif á ákvarðanir um hvernig það lítur út fyrir lífeyrisþega með tilliti til ráðstöfunartekna og alls annars sem þarf að greiða þar af. En ég sé hvergi tekið tillit til þess þannig að ég hvet bara nefnd og ráðherra til að passa upp á þetta í heildarsamhengi hlutanna varðandi einstök svona mál til að segja okkur hvaða áhrif þetta hefur á möguleika allra til að komast í skuldlaust húsnæði fyrir töku lífeyris. Og í framhaldinu, hvernig lítur það út núna í dag að við getum uppfyllt það? Svo er stóra spurningin í hina áttina: Er þetta lífeyrissjóðakerfi, með innbyggða séreignarstefnu í sér eitthvað sem við verðum að endurskoða frá grunni? Þannig að það sé ekki nauðsynlegt að fólk þurfi að klára starfsævina á þeim forsendum, að það sé ekki sjálfstætt markmið að ná skuldlausu þaki yfir höfuðið, að fólk geti lifað áfram í einhvers konar leiguhúsnæði og sé þá frjálsara í rauninni varðandi val á búsetu án þess að vera að hoppa til og frá í því að kaupa og selja íbúðarhúsnæði, sem er kostnaður út af fyrir sig. Ég myndi vilja að ríkisstjórn og þingmenn hefðu þetta í huga þegar þeir íhuga allar breytingar á lífeyrissjóðakerfinu.