Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[18:04]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti, hv. þingheimur og kæra þjóð sem ég vona að sé að hlusta núna. Hér er á ferðinni frumvarp um breytingu á lífeyrissjóðslögum. Ég lét prenta þetta út í aðeins stærra letri svo ég gæti lesið það betur en þetta eru 34 blaðsíður sem ég er með hér og hið venjulega frumvarp er einhverjar 24 blaðsíður þannig að þetta er heilmikil lesning og þetta er heilmikið sem um er að ræða hér.

Ég hef eina athugasemd við þetta ágæta frumvarp og hún er sú að við ellilífeyrisþegar sem orðin erum 70 ára njótum ekki sömu réttinda og þeir sem ekki eru orðnir sjötugir. Þá á ég við að þegar við fullorðna fólkið verðum sjötug þá þurfum við ekki lengur að borga í lífeyrissjóð á þeirri forsendu að það færi hvort sem er allt í samtryggingu og myndi ekki nýtast okkur. En þetta er ósanngjarnt vegna þess að við sem erum í fullu fjöri og erum enn þá að vinna — ég er reyndar orðinn 73 ára og ég er hér í fullri vinnu, og allt í einu þá hef ég miklu lægri laun en kollegar mínir hér á þingi. Þeir eru allir með 11,5% í lífeyrissjóð á móti sínum 4% en ég fæ það ekki. Þetta er ósanngjarnt og þeir sem eru á vinnumarkaðnum, bara hinum frjálsa vinnumarkaði, þurfa að semja sérstaklega við vinnuveitendur sína um að þeir haldi áfram að borga í lífeyrissjóð og þá gjarnan er það þannig að þeir borga í séreignarsjóð. Mér finnst mjög eðlilegt að þessu frumvarpi verði breytt á þá leið að þeir sem eru í vinnu eftir sjötugt eigi alveg jafn mikinn rétt á því að fá sín 11,5% í lífeyrissjóðsgreiðslur eins og hinir, því að eins og þetta er í dag hjá hinu opinbera — þá meina ég ríkinu, það eru einhverjar aðeins minni kröfur hjá sveitarfélögum — þá hefur ríkið þær reglur að þeir sem verða sjötugir verða bara að gjöra svo vel að hætta að vinna, hversu sprækir sem þeir eru.

Reyndar var ég að lesa í blaði Félags eldri borgara grein eftir hæstv. ráðherra Guðmund Inga Guðbrandsson. Hann talar um að hann ætli að koma því áleiðis að við sem orðin erum sjötug megum vinna áfram sem er mjög sanngjarnt. En það þarf að taka tillit til okkar varðandi þessar lífeyrissjóðsbreytingar, að það sé skýlaus réttur þeirra sem eru að vinna á annað borð að þeir njóti þeirra réttinda að fá áfram sín 11,5% og þá þannig að það verði lagt í séreignarsjóð af því að það mun nýtast okkur. Við sem orðin erum þetta gömul eigum svo sem ekki mörg ár eftir en það væri voðalega notalegt að finna fyrir því að það sem við fáum alla vega greitt myndi nýtast okkur og myndi erfast til þeirra sem eftir lifa þegar við föllum frá sem óhjákvæmilega verður á einhverjum tímapunkti.

Þetta er mín tillaga um breytingu á þessu ágæta frumvarpi um breytingu á lífeyrissjóðslögum. Ég ætla ekki að ræða önnur mál sem er svo sem eðlilegt að ræða líka en þetta er eina málið sem ég hef verulegan áhuga á og áhyggjur af.