Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[18:30]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Þetta eru reyndar mjög áhugaverðar bollaleggingar um nákvæmlega það að útvíkka frekar þetta úrræði og þessar úttektir til þess að aðstoða fólk við að fjárfesta í íbúð eða húsnæði án nánari skilgreininga á því hvar á lífsleiðinni fólk er statt. Ég verð að segja að í t.d. fréttum um kostnað stjórnvalda af ákveðnum aðgerðum, hvort sem það er vegna Covid eða verðbólguaðstæðna eða þegar harðnar á dalnum hjá þorra fólks, þá sjáum við að þetta er alltaf eitt af fyrstu úrræðunum sem hlaupið er í, þ.e. lífeyrissparnaðurinn okkar. Það finnst mér ekki góð pólitík.

Svo er hitt. Mér finnst sláandi hvað skatttekjur stjórnvalda af þessari lífeyrisúttekt almennings vega stóran hluta af útlögðum kostnaði þessara sömu stjórnvalda. Það truflar mig að við séum að búa til hvata hérna t.d. fyrir vinnandi fólk að taka út lífeyrissparnað til að létta undir hjá sér. Það gerir tvennt, það étur af lífeyrissparnaði þessara fjölskyldna í framtíðinni og það léttir undir með stjórnvöldum af því að það er jú verið að borga skatt í hæsta þrepi af þessu. Þetta er því neysluhvetjandi að því leyti til. Þetta er ekki það sem lagt var upp með á sínum tíma. Ég held að þessi umræða þurfi að eiga sér stað í einhverju stærra umfangi en við náum að tala saman hér í þessum andsvörum. En ég held að þetta sé nokkuð sem á alla athygli okkar skilið í náinni framtíð, að skoða hvernig farið er með þessi mál.