152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

um fundarstjórn.

[18:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætlaði nú bara að koma hingað til að nefna sérstaklega eina fyrirspurn sem er núna komin fram yfir áskilinn tíma, fyrirspurn frá mér sem lýtur að upplýsingum vegna útvistunaraðgerða vegna of langs biðtíma í heilbrigðiskerfinu. Ég er sérstök áhugamanneskja um þessi mál, þ.e. að við hættum að útvista aðgerðum til útlanda og nýtum þess í stað okkar ágætu sérfræðinga hér á landi. Spurningarnar sem ég lagði fyrir ráðherra eru allar þess eðlis að ég neita að trúa því að ráðherra hafi ekki svörin hjá sér þegar hann tekur ákvörðun um að viðhalda núverandi ástandi. Það er efni í heila stóra umræðu ef svo er og það bítur höfuðið af skömminni, sem þessi útvistun til erlendra aðila vegna of langs biðtíma hér heima er, ef í þokkabót (Forseti hringir.) eru ekki til upplýsingar hjá hæstv. ráðherra og ráðuneyti til að renna stoðum undir þær ákvarðanir. Ég hefði haldið að þetta væri fyrst og fremst uppsetning á upplýsingum sem ráðherra og ráðuneytið hafa nú þegar. Ég segi þetta (Forseti hringir.) bara til að vekja athygli á því hversu mikill óþarfi þessi staða er.