152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

699. mál
[19:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem gerðist hér, má eiginlega segja, að við fórum að innleiða þetta með svigrúmi og fórum að tala um varanlega geymslu í staðinn fyrir bara geymslu eða varanlega niðurdælingu í staðinn fyrir niðurdælingu til geymslu. Þar af leiðandi féll þetta ekki undir þau loftslagskerfi sem eru nú þegar í gangi í Evrópusambandinu og því þurfum við að bakka núna. Eins og ég sagði áðan í framsögu minni þá snýst þetta mál bara um orðalag til að víkka löggjöfina og aðlaga að því Evrópuregluverki sem við höfum þegar undirgengist til að taka þátt í þessum loftslagsmálum. Háttvirt nefnd er að flytja málið til þess að þær aðferðir sem eru komnar af stað og búnar að vera lengi í undirbúningi geti haldið áfram. Það var því ekki meiningin að fara í efnislega umfjöllun hér í málinu, hún fór fram síðast, en breyta orðalaginu svo að þetta nái víðar yfir.

Ég ætla ekki að segja til um það hér hvar jörðin byrjar eða endar, hvort niðurdæling í hafið sjálft dugi eða hvort það þurfi að fara ofan í sjávarbotninn formlega til þess að falla undir þetta regluverk. Um það ætla ég ekki að fullyrða. En hugsunin hér var bara þessi formbreyting, orðalagsbreyting þannig að ætlunin með frumvarpinu, þegar það fékk efnislega meðferð, nái fram að ganga.