Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Viðmið landlæknis um ásættanlegan biðtíma sjúklinga kveður á um 80% þeirra komist í aðgerð innan 90 daga. Nú er það svo að upplýsingar um stöðu mála 1. september sl. um biðlista í helstu skurðaðgerðaflokkum sýna að 14 flokkar af 18 eru yfir 90 daga viðmiðinu. Svona lítur myndin út, bláu súlurnar eru yfir 90 daga viðmiðinu, þessar litlu, fáu, grænu eru undir viðmiði landlæknis. Staðan batnaði sannarlega ekki í vetur. Við eigum sérfræðinga sem framkvæma þessar aðgerðir hér á landi og þeir hafa sannarlega nóg að gera. En það fáránlega er að stjórnvöld koma í veg fyrir að Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í kostnaði við þessar aðgerðir, sem er nokkuð sem sjúkratryggðir Íslendingar eiga í raun rétt á. Þess vegna er þessi vöxtur í heilbrigðistúrisma í formi útflutnings á sjúklingum í aðgerðir erlendis. Ríkið borgar nefnilega það rugl. Nú er óljóst hve margir sjúklingar hafa fengið höfnun frá Sjúkratryggingum á greiðsluþátttöku vegna aðgerða hér á landi á grunni þess að það er ekki til staðar samningur við viðkomandi sérfræðinga eða þjónustuveitendur. Það er líka óljóst hver verkferillinn er varðandi samþykki Sjúkratrygginga á þjónustu þessara erlendu þjónustuveitenda, hvort Sjúkratryggingar hafi yfir höfuð aflað gagna um gildandi samninga þar í landi og hvort greiðslur Sjúkratrygginga til þessara aðila séu í samræmi við þá samninga. Mér þykir eðlilegt að gera þá kröfu til stjórnvalda að þessar upplýsingar liggi fyrir og það sé haft til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir um að viðhalda núverandi stöðu. Ég geri þá kröfu fyrir hönd þeirra þúsunda sem hafa beðið í óásættanlegan tíma eftir nauðsynlegri þjónustu, fyrir hönd þeirra sjúkratryggðu Íslendinga sem neyðast til að borga fullt verð fyrir aðgerðir hér á landi af því að þeir treysta sér ekki til útlanda í aðgerðir, og fyrir hönd skattgreiðenda vegna þess að við vitum að heildarkostnaður ríkisins við aðgerðirnar erlendis er töluvert meiri en yrðu þær framkvæmdar hér á landi. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Fyrir mánuði lagði ég inn fyrirspurn til heilbrigðisráðherra sem náði m.a. til þessara atriða (Forseti hringir.) og ég bíð spennt eftir svörum og gerir ráð fyrir því að þau muni varpa mikilvægu ljósi á stöðu sem í augum okkar flestra (Forseti hringir.) er algjörlega óskiljanleg.

(Forseti (OH): Ég minni hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)