Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. „Stundum finnst mér ég vera velkomin og stundum ekki. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera þegar ég kom hingað, ég fékk ekki stuðning. Helsti misskilningurinn er að við innflytjendur séum ekki vel menntuð eða að við séum að flýja fátækt. Við getum ekki sett alla innflytjendur í sama boxið. Við erum alltaf að horfa á innflytjendur sem koma hingað eins og þau hafi ekki átt neitt líf, eins og þau hafi fæðst úti á Keflavíkurflugvelli. Ég var alveg einhver.“

Virðulegur forseti. Þetta voru raddir kvenna af erlendum uppruna sem félagasamtökin Hennar rödd hafa safnað í bókinni Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi sem mun koma út síðar á þessu ári. Í nýliðinni nýsköpunarviku var einmitt fjallað um það hvernig konur af erlendum uppruna á Íslandi eru ónýttar auðlindir í íslensku samfélagi, konur sem koma með nýjar hugmyndir og þekkingu inn í okkar litla samfélag. Það er einmitt mjög mikilvægt að þessi fjölbreyttu sjónarhorn og reynsla sé virkjuð þegar kemur að nýsköpun.

Gögnin sýna okkur líka að konur af erlendum uppruna fá síður atvinnu hér á landi, þau sýna okkur einnig að konur af erlendum uppruna fá um 10–15% lægri laun en Íslendingar með sömu reynslu og menntun. Já, það er nefnilega eins og einn viðmælandinn í bókinni orðaði það, stundum er eins og við höldum að þær hafi fæðst við komuna á Keflavíkurflugvöll. Hér á dagskrá í dag er frumvarp um jafna meðferð óháð þjóðernisuppruna. Þó svo að þetta frumvarp sé vel meint þá má betur gera ef duga skal. Við þurfum að leggja vinnu í að finna alla þá veggi sem konur af erlendum uppruna rekast á og laga þau atriði sem betur mega fara.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að við hlustum á raddir kvenna af erlendum uppruna og gerum upplifun þeirra (Forseti hringir.) af jafnréttislandinu Íslandi betri. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)