Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Hvar er heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins eiginlega? Það er bókstaflega ekkert að frétta. Eða jú, það er helst að frétta að það er ekkert verið að gera til að bæta það ófremdarástand sem ríkt hefur í heilbrigðiskerfinu síðastliðin ár þrátt fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem sífellt hleypur hraðar og hraðar. Eða jú, það er helst að frétta að nú ætlar ríkisstjórnin að einkavæða þjónustu við eldra fólk sem dvalið hefur á Vífilsstöðum í stað þess að fara í alvöruheildaruppbyggingu á okkar mjög svo brothætta heilbrigðiskerfi, alvöruuppbyggingu sem tekur tillit til eftirspurnar eftir nauðsynlegri þjónustu, dreifingu þjónustu um landið, yfirsýnar yfir mannafla, húsnæði og fjármuni. Eða jú, það er helst að frétta að það er búið að segja upp öllum hjúkrunarfræðingum sem sinnt hafa símsvörun Læknavaktarinnar, símsvörun sem hefur í raun verið bjargráð heilbrigðisþjónustu hringinn í kringum landið, símsvörun þar sem notendur heilbrigðisþjónustu og starfsfólk hefur getað leitað ráða hjá færum sérfræðingum með margs konar og yfirgripsmikla þekkingu.

Frú forseti. Svo að við tökum upp líkingamál sem hæstv. heilbrigðisráðherra skilur þá vil ég benda á að það er langt liðið á fyrri hálfleik hjá honum og út úr liðinu streyma lykilleikmenn sem haldið hafa liðinu á floti. Fólkið í stúkunni er farið að hvísla sín á milli að kominn sé tími á þjálfaraskipti, enda þolinmæðin lítil eftir slakt gengi á síðasta kjörtímabili. Það var ekki bara einn starfsmaður sem sagði upp á Landspítalanum í gær, það var lykilstarfsmaður á bráðamóttöku í Fossvogi sem sagði upp vegna langvarandi álags og engrar lausnar í sjónmáli. Fleiri lykilstarfsmenn hyggja á brottför af því að fólk fer heim af vaktinni með nagandi samviskubit og eftirsjá í boði ríkisstjórnarinnar. Nei, þaðan er ekkert að frétta.