Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Danska þjóðin tekur stóra ákvörðun á morgun, greiðir atkvæði um það hvort danska ríkið eigi að falla frá undanþágu sinni um þátttöku í varnarsamstarfi Evrópusambandsins. Mette Frederiksen forsætisráðherra hefur mælt með því að landsmenn greiði atkvæði gegn því að þjóðin sé áfram utan varnarmálastefnunnar. Þetta er stór ákvörðun sem hefur auðvitað augljósa þýðingu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Niðurstaðan er ekki augljós en þar í landi hefur verið brugðist við breyttri stöðu í Evrópu með samtali við þjóðina um hagsmunamatið. Hið sama hafa Finnar og Svíar gert, fyrst með samtali við þjóðina og svo með ákvörðun um að sækja um aðild að NATO.

Það er af góðri ástæðu sem lögð hefur verið fram tillaga á Alþingi um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Nýr veruleiki í öryggis- og varnarmálum kallar á mat á hagsmunum Íslands, nýtt mat um það hvort þeim hagsmunum sé betur varið fyrir innan eða utan. Samtal og rökræða um grundvallarhagsmuni þjóðarinnar verður að fá að fara fram. Þjóðaratkvæðagreiðsla er sérstaklega vel til þess fallin að þroska og dýpka umræðuna um stöðu Íslands og hagsmuni þess gagnvart Evrópusamvinnu.

Mikill samhugur hefur ríkt hér á Alþingi um eindreginn stuðning við málstað Úkraínu og um það að liðsinna úkraínskri þjóð á allan þann hátt sem okkur er unnt. Í kjölfarið þarf jafnframt að fara fram samtal um hvernig hin breytta staða hefur áhrif á Evrópu annars vegar og á Ísland hins vegar. Þess vegna ættu allir flokkar að sameinast um að það samtal fari fram, um kosti og galla í þessari stöðu, og það er þjóðin sem á að fá að taka ákvörðunina. Ég vil enda á því að minna á það, af því að við erum alltaf að ræða um þjóðarvilja, að þar er hugmyndafræðin um lýðræðið að verki.