Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Allur heimurinn er að bregðast við afleiðingum stríðsátakanna í Úkraínu. En hvar stöndum við á Íslandi? Fjölmargar þjóðir hafa nú þegar lagt til aukið fjármagn til landbúnaðar til að koma í veg fyrir hrun í matvælaframleiðslu. Það þarf viðbótarfjármagn við það sem sett var til landbúnaðar til að bregðast við áburðarverðshækkun í byrjun árs. Í liðnum aprílmánuði ákvað finnska ráðherranefndin, sem fjallar um neyðarviðbúnað, að setja 300 milljónir evra til styrktar innlendri matvælaframleiðslu. Neyðarpakkinn inniheldur m.a. greiðslur til að styrkja og styðja við lausafjárstöðu bænda og langtímaaðgerðir; yfir 27 milljónir evra til að byggja eldishús, gróðurhús, geymslur fyrir grænmeti og garðyrkjuafurðir, stuðning við hreindýrarækt og sjávarútveg og 45 milljónir evra til að lækka orkuskatt. Allt gert til að styrkja og auka matvælaframleiðslu innan lands.

Virðulegur forseti. Í Noregi hafa bændur og stjórnvöld nýlega lokið við samninga um landbúnaðarstuðning fyrir árin 2022–2023. Síðustu ár hafa norskir bændur setið eftir í tekjuþróun samanborið við aðrar greinar. Nú er önnur staða uppi. Norsk stjórnvöld hafa komið til móts við bændur og bætt þeim versnandi kjör síðustu ára. Þeim kostnaðarauka sem nú blasir við bændum í Noregi verður að fullu mætt með hærra afurðaverði og opinberum stuðningi. Með þessum ráðstöfunum mun stuðningur við norska bændur aukast um 10,9 milljarða norskra króna og hækka afurðaverð um 1,5 milljarða.

Virðulegur forseti. Hvað geta stjórnvöld hér á landi gert til að treysta fæðuöryggi þjóðarinnar? Er tilefni til að skoða viðspyrnuaðgerðir fyrir landbúnað líkt og gert var í kórónuveirufaraldrinum en nú til að lækka kostnað vegna stríðsaðgerða Rússa í Úkraínu? Með því að fara að hætti Norðmanna mætti koma í veg fyrir hækkanir til neytenda og að þeir bændur sem hafa þurft að taka á sig auknar hækkanir fái þær bættar en komist hjá því að velta þeim út í verðlagið. Það á að vera stefna stjórnvalda að auka og treysta matvælaframleiðslu í landinu. Það er hluti af þeim kostnaði að vera frjáls og fullvalda þjóð.