Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil ræða mál sem ætti að vera forgangsmál í störfum Alþingis Íslendinga. Að geta lesið sér til gagns er grunnfærni lífinu, lykillinn að námi, þekkingarleit og þekkingarþróun hvers einstaklings. Hver er staðan varðandi lestrarkunnáttu barna og ungmenna á Íslandi, hjá sjálfri bókaþjóðinni, þjóð sem er þekkt fyrir ómetanlegt framlag sitt til heimsbókmenntanna? Fátt hefur mótað sjálfsmynd Íslendinga jafn mikið og að þeir séu bókaþjóð, að hafa skrifað hin stórkostlegu handrit, sjálfar Íslendingasögurnar og konungasögur Noregs, svo eitthvað sé nefnt. Hin Norðurlöndin tala um „Sagaøen“ af mikilli virðingu.

Þegar niðurstöður rannsókna um lestrarkunnáttu eru skoðaðar virðist sem keisarinn sé án klæða hjá bókaþjóðinni. Undarleg þögn hefur verið um þetta mál í fjölmiðlum og í samfélagsumræðunni. Það er í sjálfu sér rannsóknarefni. Rannsóknir sýna að 92,5% innflytjenda eru á rauðu og gulu ljósi hvað varðar íslenskukunnáttu, kunna sem sagt ekki íslensku. Þetta er samkvæmt skýrslu frá Reykjavíkurborg árið 2019. Meira en níu af hverjum tíu börnum innflytjenda virðist ekki ná færni í íslensku. Grundvallarfærni til að vera virkur þátttakandi í samfélaginu er að ná tungumálinu sem talað er í samfélaginu. Hvar er umræðan um þetta gríðarlega mikilvæga mál? Rannsóknir sýna að 15 ára börn norskra og danskra innflytjanda, samkvæmt PISA-rannsókn 2018, skora hærra í lesskilningi en íslenskir drengir á sama aldri, unglingar á Suðurnesjum, Vesturlandi og Norðurlandi eystra. Rannsóknir sýna að 39% barna eftir 2. bekk grunnskóla í Reykjavík eru ekki að lesa sér til gagns. Við höfum ekki upplýsingar úr öðrum sveitarfélögum, því miður. Rannsóknir sýna að 38% 15 ára unglinga ná ekki grunnfærni í lesskilningi og stærðfræði. Þetta er hrikalegt ástand. Hver ber ábyrgð á þessu? (Forseti hringir.) Jú, það er Alþingi Íslendinga sem ber ábyrgð á þessu og enginn annar. Við verðum að fara að gera eitthvað í þessum málum. (Forseti hringir.) Það eru þegar komnar niðurstöður og til aðferðir til að kenna börnum að lesa í heiminum (Forseti hringir.) og við eigum að nota þær aðferðir og engar aðrar.

(Forseti (OH): Ég minni hv. þingmenn á að virða ræðutímann. )