Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands.

514. mál
[14:25]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil, fyrir hönd hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þakka fyrir það tækifæri að fá að ræða álit nefndarinnar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands. Skýrslan var send hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í febrúarmánuði á þessu ári og var þar til umfjöllunar. Kallaðir voru til gestir, fengnar frá þeim umsagnir og í raun kallaðir þeir til sem teljast mega haghafar í málinu, svo sem starfsfólk Landhelgisgæslunnar og dómsmálaráðuneytisins ásamt fleirum.

Meginniðurstöður nefndarinnar eru að taka undir þau tilmæli sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það verður að segjast eins og er, frú forseti, að þessi skýrsla er engin sérstök skemmtilesning vegna þess að hún dregur mjög skýrt fram hvernig vegið er að viðbragðsgetu, æskilegu úthaldi og tækjakosti Landhelgisgæslu Íslands vegna ónógra fjárveitinga og áætlana sem standast ekki. Að mati Ríkisendurskoðunar hafa viðmið í fyrirliggjandi drögum að landhelgisgæsluáætlun um viðbragðsgetu, æskilegt úthald og tækjakost Gæslunnar ekki verið í samræmi við forsendur fjárlaga og fjármálaáætlana og því óraunhæf í því ljósi. Það verður að segjast eins og er, frú forseti, að það er mikill ábyrgðarhluti að samþykkja eða leggja til áætlanir sem eiga að tryggja viðbragðsgetu, úthald og tækjakost í líklega því verkefni sem við metum hvað mest sem þjóð, þ.e. þeirri þjónustu og öryggisvernd sem Landhelgisgæslan veitir okkur, en að þetta séu óraunhæfar áætlanir því að fjármögnun er ekki eins og hún þarf að vera. Ríkisendurskoðun bendir að sjálfsögðu á að hagræða megi í rekstri stofnunarinnar og tryggja þurfi sveigjanleika.

Í annan stað má nefna að gerð er athugasemd við það hvort Landhelgisgæslan eigi að gera þjónustusamning um varnartengd verkefni við utanríkisráðuneytið. Í því efni er gott að benda á að hér þarf ábyrgðarkeðjan að vera skýr, bæði í faglegum og fjárhagslegum skilningi. Einhverjir þingmenn muna kannski eftir því að hér var einu sinni til Varnarmálastofnun, hún var lögð niður árið 2010 en af einhverjum ástæðum hafa verkefnin sem þar voru ekki verið að fullu færð til dómsmálaráðuneytisins og við því þarf að bregðast því ábyrgðarkeðjan verður að vera algjörlega skýr þegar kemur að varnarverkefnum.

Ríkisendurskoðun telur einnig að bæta þurfi nýtingu og afköst varðskipa og auka viðveru flugvélarinnar TF-SIF á Íslandsmiðum. Aftur er vikið að óraunsærri langtímaáætlanagerð þegar kemur að rekstri og fjárfestingum í skipakosti Gæslunnar og er það talið alvarlegur veikleiki.

Þá er einnig vikið að flugkosti Gæslunnar og notuð þau sömu orð að þar sé þörf á raunhæfum áætlunum um fjárfestingar og rekstur loftfara svo viðunandi björgunargeta sé tryggð.

Þá er vikið að því, og ég mun víkja að því aftur síðar í minni ræðu, að setja reglur um notkun ráðherra og annarra einstaklinga á loftförum, þyrlum og skipum Landhelgisgæslunnar og gerðar eru alvarlegar athugasemdir við notkun slíkra farartækja í einkaerindum.

Einnig er bent á að TF-SIF sé vannýtt til eftirlits og björgunar þar sem meiri hluti heildarflugstunda vélarinnar hefur verið í leigu erlendis. Ríkisendurskoðun telur að mikilvægt sé að TF-SIF sé fyrst og fremst notuð til eftirlits og annarra verkefna hérlendis í ljósi meginhlutverks Gæslunnar sem sé að sinna öryggisgæslu, björgun og löggæslu á hafinu við Ísland. Gerðar eru níu tillögur til úrbóta og fjallað var um þær allar í umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um þessa ágætu skýrslu.

Ég vil næst víkja að því er kallað er landhelgisgæsluáætlun. Dómsmálaráðuneytið hefur á undanförnum árum fyrirhugað að leggja fram opinberlega landhelgisgæsluáætlun þar sem skilgreint verði öryggis- og þjónustustig Gæslunnar og lagt mat á kostnað og fjárfestingarþörf. Engar slíkar áætlanir hafa þó verið fullunnar og síðasta útgáfa af slíkri áætlun er frá árinu 2018, hún er sem sagt fjögurra ára gömul og spyrja má hvað valdi því að ekkert hafi hreyfst í þessari mikilvægu áætlanagerð í fjögur ár.

Í skýrslunni og fyrir nefndinni kom fram að landhelgisgæsluáætlun hafi ekki virkað sem skyldi. Fremur sé um að ræða óskalista um það hvernig sinna mætti skyldum stofnunarinnar þar sem sett væri fram framtíðarsýn um æskilegt úthald og tækjakost sem ekki væri í nægilegum tengslum við fjárlög og fjármálaáætlun. Hins vegar væri að finna í henni hlutlægar skilgreiningar á öryggis- og þjónustustigi stofnunarinnar í samræmi við lögbundið hlutverk hennar og alþjóðlegar skuldbindingar. Mat á þeim aðföngum sem þarf til að ná þeim markmiðum að halda uppi viðunandi viðbragðsgetu sé byggt á faglegum greiningum.

Að mati nefndarinnar þurfa dómsmálaráðuneytið og Landhelgisgæsla Íslands að taka stefnumótun, markmiðasetningu og eftirfylgni fastari tökum. Nefndin tekur að sjálfsögðu undir það sjónarmið að mikil og góð greining hafi farið fram í tengslum við gerð landhelgisgæsluáætlunarinnar. Það þarf að vera samræmi í þessari vinnu og það þarf að vera samræmi á milli áætlana og fjárlaga og fjárveitinga.

Eins og kunnugt er hefur TF-SIF verið í verkefnum á vegum Frontex sem er landamæraeftirlit Evrópusambandsins og sér um ytri landamæri Schengen-landanna og eins og þingheimur veit er Ísland aðili að Schengen-samstarfinu. Ísland er skuldbundið til að taka þátt í sameiginlegum aðgerðum stofnunarinnar og ber skylda til að veita liðsinni við slíkar aðgerðir. Sé TF-SIF ekki nýtt í þetta verkefni ber íslenskum stjórnvöldum að veita aðstoð með öðrum hætti. Ráðuneytið hefur metið það svo að það sé gagnlegt að nýta TF-SIF í þessi verkefni. Með því fái áhöfn vélarinnar m.a. mikilvæga þjálfun í leit og björgun. Nefndin gerir ekki athugasemd við að TF-SIF sé nýtt í verkefni á vegum Frontex. Hins vegar telur nefndin að tryggja þurfi viðveru hennar hér á landi allt árið, svo eftirlit með landhelginni sé bætt. Við bendum einnig á að það sé ráðuneytisins að leita leiða til að auka viðveru vélarinnar hér við strendur og tryggja fullnægjandi öryggis- og þjónustustig á hafinu umhverfis Ísland.

Mig langar að lokum að víkja að umfjöllun Ríkisendurskoðunar um nýtingu loftfara í þágu æðstu stjórnenda ríkisins. Eins og kunnugt er var gerð athugasemd við það í ágúst 2020 að þáverandi dómsmálaráðherra hefði flogið með þyrlu Landhelgisgæslunnar frá Reynisfjöru til Reykjavíkur. Það var sem sagt skutlað fram og til baka, frú forseti. Ríkisendurskoðun hefur kannað hversu oft loftför Gæslunnar hafa verið nýtt til að ferja æðstu stjórnendur ríkisins á árunum 2018–2020 og það voru alls tíu skipti sem þeir voru farþegar. Gerð er alvarleg athugasemd við það og nefndin tekur undir þá alvarlegu athugasemd við það að loftför Gæslunnar séu nýtt til persónulegra erinda fyrir ráðamenn þjóðarinnar. Það er einfaldlega ekki hægt að una við að þannig sé það gert. Það er talað um, svo vitnað sé beint til orða Ríkisendurskoðunar, að notkun skipa og loftfara Landhelgisgæslunnar í einkaerindum sé alvarlega athugunarverð og hvatt til þess að settar verði skýrar reglur um afnot æðstu stjórnenda af slíkum farkosti. Nefndin tekur undir þær athugasemdir og það er alveg ljóst að þrátt fyrir þá viðbáru fulltrúa Landhelgisgæslunnar að alltaf sé gott að fá flugtíma og alltaf sé gott að komast í loftið vegna þess að fólk þurfi að vera í þjálfun, þá verður það að viðurkennast að það er algerlega óviðunandi að Landhelgisgæslan, þetta öryggistæki, sé nýtt til þess að skutla ráðherrum þó að það sé á mikilvægan fund þegar það fer í bága við þann viðbragðsflýti og það öryggi sem við viljum veita borgurum og sjófarendum.