Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands.

514. mál
[14:35]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Landhelgisgæslan hefur gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna á Íslandi og í lögum nr. 52/2006 eru nokkrar skilgreiningar á starfssviði hennar. Í 3. gr. laganna segir, með leyfi forseta:

„Starfssvæði Landhelgisgæslu Íslands er hafið umhverfis Ísland, þ.e. innsævið, landhelgin, efnahagslögsagan og landgrunnið, auk úthafsins samkvæmt reglum þjóðaréttar. Landhelgisgæsla Íslands sinnir einnig verkefnum á landi í samstarfi við lögreglu og önnur yfirvöld.“

Þetta er gríðarlega viðamikið.

Í 4. gr. laganna eru verkefni Landhelgisgæslunnar nánar skilgreind og það er enginn smá listi. Þau eru eftirfarandi, með leyfi forseta:

„1. Öryggisgæsla á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði laga. 2. Löggæsla á hafinu, þ.m.t. fiskveiðieftirlit og aðstoð við löggæslu á landi í samvinnu við ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra. 3. Leitar- og björgunarþjónusta við sjófarendur, skip og önnur farartæki á sjó. 4. Leitar- og björgunarþjónusta við loftför. 5. Leitar- og björgunarþjónusta á landi. 6. Aðkallandi sjúkraflutningar í samvinnu við aðra björgunaraðila. 7. Aðstoð við almannavarnir. 8. Aðstoð, þegar eðlilegar samgöngur bregðast, svo sem vegna hafíss, snjóalaga, ofviðra eða náttúruhamfara. 9. Eftirlit á hafinu samkvæmt lögum um siglingavernd og öðrum sambærilegum lögum. 10. Að tilkynna um, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem sjófarendum getur stafað hætta af auk sprengjueyðingar á landi. 11. Sjómælingar, sjókortagerð, útgáfa tilkynninga til sjófarenda, sjávarfallataflna og leiðsögubóka auk annarra rita sem tengjast siglingum. 12. Móttaka tilkynninga frá skipum samkvæmt lögum um útlendinga og eftirlit með lögsögumörkum á hafinu. Ráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd einstakra verkefna í reglugerð.“

Í 5. gr. laganna er svo að auki skilgreind samningsbundið þjónustuverkefni sem ég ætla ekki að lesa hér en sá listi er álíka langur og felur m.a. í sér sprengjueyðingu, tolleftirliti og aðstoð við læknisþjónustu auk mengunarvarna, svo nokkuð sé nefnt.

Það á við um Landhelgisgæsluna eins og svo margt annað í opinberum rekstri að markmiðin eru háleit og göfug en svo fylgir ekki fjármagn til að gera allt sem til er ætlast. Rekstur Landhelgisgæslunnar er í eðli sínu dýr. Allur búnaður og tæki eru dýr þannig að í hvert sinn sem þarf að endurnýja eitthvað kostar það mikil fjárútlát. Fram kom á fundum nefndarinnar að Landhelgisgæslan sé nokkuð vel búin tækjum en skorti fé til viðhalds. Landhelgisgæslan ræður yfir tveimur skipum, einni þyrlu og einni flugvél. Þetta sleppur en þó bara rétt svo. Það er t.d. bagalegt að það sé aldrei nema eitt varðskip úti í einu. Til að ráða bót á því þyrftu einfaldlega að vera tvær áhafnir á hvoru skipi. Einhvern veginn finnst manni að það ætti að vera tiltölulega auðvelt að ráða bót á því þegar jafn mikið er í húfi og raun ber vitni. Ein þyrla er ekki nóg en því hefur verið bjargað með leiguþyrlum sem gera að sjálfsögðu sama gagn en þó hefur sú staða komið upp að aðeins ein þyrla sé tiltæk og árið 2020 voru heilir sjö dagar þar sem engin þyrla var tiltæk. Slys gera ekki boð á undan sér og þar að auki geta fleiri en eitt slys þar sem þyrlu er þörf átt sér stað á sama tíma. Flugvélin TF-SIF er nær aldrei á landinu því að hún er leigð til verkefna á vegum landamæra- og strandgæslustofnunar Evrópu.

Í skýrslu sinni leggur Ríkisendurskoðun áherslu á að dómsmálaráðuneytið og Landhelgisgæslan leiti allra leiða til að auka viðveru og nýtingu TF-SIF við eftirlit með landhelginni. Flugvélin sé lykileining við eftirlit og löggæslu á hafinu og ljóst að ekki sé hægt að halda uppi viðunandi eftirliti þegar flugvélin er ekki til staðar.

Í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um að viðmið sem sett eru fram í drögum að landhelgisgæsluáætlun um viðbragðsgetu, æskilegt, úthald og tækjakost séu ekki í samræmi við fjárlög og fjármálaáætlanir. Það er bara ekki ásættanlegt. Þar kemur einnig fram að ekki hafi verið lögð fram landhelgisáætlun þar sem skilgreind eru öryggis- og þjónustustig Landhelgisgæslu Íslands ásamt mati á kostnaði og fjárfestingarþörf síðan 2018. Það væri því nær að tala um óskalista um hvernig stofnunin gæti sinnt skyldum sínum fremur en raunhæfar áætlanir í samræmi við fjárlög og fjármálaáætlun.

Eitt af því sem Ríkisendurskoðun gagnrýndi í skýrslu sinni voru kaup Landhelgisgæslunnar á olíu í Færeyjum til að spara sér að greiða virðisaukaskatt. Þá fjármuni var þá hægt að nýta í annað. Í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar stendur, með leyfi forseta:

„Að mati nefndarinnar endurspeglar þessi staða“ — þ.e. að Landhelgisgæslan sjái sig tilneydda til að kaupa olíu í Færeyjum — „þá staðreynd að rekstur Landhelgisgæslunnar er yfirgripsmikill og flókinn. Tækjakostur stofnunarinnar er dýr og viðhald hans kostnaðarsamt. Takmarkað svigrúm sé því til að bregðast við óvæntum og kostnaðarsömum bilunum. Að mati nefndarinnar hefur þessi staða óneitanlega leitt til þess að Landhelgisgæslan hafi leitað allra leiða til að fjölga úthaldsdögum varðskipanna til að tryggja sem best öryggi á hafinu með öflugri leitar- og björgunarþjónustu, virku eftirliti og löggæslu. Það er hins vegar óheppilegt að stofnunin sé sett í slíkar aðstæður. Nefndin beinir því til ráðuneytisins, í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, að leita leiða til að tryggja að kaup Landhelgisgæslunnar á olíu hér á landi hafi ekki neikvæð áhrif á úthaldsdaga varðskipanna.“

Að mati stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þurfa dómsmálaráðuneytið og Landhelgisgæsla Íslands að taka stefnumótun og markmiðasetningu Landhelgisgæslunnar ásamt eftirfylgni fastari tökum. Landhelgisgæslan er gríðarlega mikilvæg stofnun. Það skiptir máli fyrir öryggi þjóðarinnar að hún standi undir þeim væntingum sem til hennar eru gerðar. Það þarf að fara vel yfir rekstur hennar og hlutverk og byggja fjárframlög til hennar á raunhæfum grunni.