Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands.

514. mál
[14:49]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands. Skýrslan byggir á beiðni frá fyrrverandi hv. þm. Smára McCarthy sem var samþykkt á Alþingi í desember 2020. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að hún hafi óskað eftir því að Landhelgisgæslan upplýsti hversu oft loftför stofnunarinnar væru notuð til að flytja ráðherra, ráðuneytisstjóra og aðra aðila innan eða á vegum stjórnsýslunnar á árunum 2018–2020. Í svari stofnunarinnar kom fram að ráðamenn voru meðferðis í tíu flugverkefnum á þessum tíma. Fjallað er sérstaklega í skýrslunni um þyrluflug ráðherra frá því í ágúst 2020 þegar þáverandi dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, var farþegi í þyrlunni TF-EIR frá Reynisfjöru, þar sem hún var stödd í einkaerindum, til Reykjavíkur og svo til baka. Einungis ein þyrla var tiltæk hjá Landhelgisgæslunni þegar þáverandi dómsmálaráðherra þáði far með henni. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að ferðir ráðherra og annarra einstaklinga með þyrlum Landhelgisgæslunnar séu alvarlega athugunarverðar og sé ég mér ekki fært annað en að taka undir það. Tækin sem keypt eru eða leigð til löggæslu og björgunarstarfa til þess að gæta öryggis almennings eiga augljóslega ekki að vera misnotuð í þágu ráðamanna, einkaþágu þeirra allra síst.

Ég fæ hins vegar ekki séð að miklar breytingar hafa orðið á viðhorfum sitjandi ráðherra gagnvart því að nota þyrlur Landhelgisgæslunnar þar sem núverandi hæstv. dómsmálaráðherra hefur haldið áfram að nota þyrlurnar með hætti sem vafi leikur á um að sé í samræmi við gagnrýni Ríkisendurskoðunar. Lagði Ríkisendurskoðun til að í reglum sem settar yrðu um afnot æðstu stjórnar ríkisins af loftförum í eigu eða leigu stofnana ríkisins yrðu leyfileg afnot einkum látin taka til „flutninga vegna óvæntra atburða eða formlegra athafna á vegum æðstu stjórnar ríkisins en að öll einkaafnot verði óheimil“. Ríkisendurskoðun áréttaði hins vegar í skýrslu sinni að hún teldi varhugavert að túlka ákvæði laga um ábyrgð og yfirstjórn ráðherra með þeim hætti að hann hafi heimild til að nýta eða ráðstafa mannauði, eignum eða öðru lausafé stofnunarinnar í þágu embættisins frá degi til dags. Þannig að það eru ekki bara einkaerindi þarna undir heldur einnig tilfallandi erindi á vegum embættisins. Svo virðist sem engin hugarfarsbreyting hafi orðið hjá hæstv. ríkisstjórn þrátt fyrir ámæli Ríkisendurskoðunar og tel ég því tilefni til að halda þessari umræðu áfram og þessari gagnrýni og tek undir það.

Mig langar einnig að gera að umtalsefni mínu fjármögnun Landhelgisgæslunnar frá öðrum ríkisaðilum. Þaðan koma um 27% af tekjum Landhelgisgæslunnar. Hluti þeirra kemur með útleigu á flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, til landamæra- og strandgæslustofnunar Evrópu, einnig þekkt sem Frontex, sem Ísland er aðili að. Þótt ekki sé fjallað í löngu máli um eðli verkefna flugvélarinnar fyrir Frontex í skýrslunni kemur fram í tilkynningum Landhelgisgæslunnar að flugvélin hafi sinnt landamæraeftirliti á austanverðu Miðjarðarhafi. Í svörum Landhelgisgæslunni kemur fram að allt frá hruni hafi TF-SIF verið nýtt til landamæraeftirlits fyrir Frontex í allt að sex mánuði á ári. Það er helmingur ársins. Fram kemur enn fremur í skýrslunni að Landhelgisgæslan hafi allt frá árinu 2010 tekið þátt í fjölmörgum verkefnum á vegum Frontex og m.a. lagt til varðskip og eftirlitsflugvél og mörg þessara tækja hafa einmitt verið nýtt í landamæraeftirlit á Miðjarðarhafinu. Það kann að vera sumum ljóst en þó ekki öllum hvað felst í þessu landamæraeftirliti á Miðjarðarhafinu. Í því felst aðallega að flugvélin er að leita flóttafólki sem er að gera tilraunir til að komast til Evrópu. Á einum mánuði árið 2018 fann flugvélin 900 flóttamenn sem freistuðu þess að flýja til Evrópu. Það er sannarlega göfugt og mikilvægt verkefni að koma í veg fyrir að fólk farist á sjó, sem mikil hætta er á á þessum slóðum, en þar með er sagan ekki öll. Viðvera Landhelgisgæslunnar í Miðjarðarhafinu snýst nefnilega ekki bara um leit og björgun heldur um að aðstoða við stefnu og áætlanir Evrópusambandsríkja um að herða aðgerðir gegn fólkssmyglurum og auka samstarf við til að mynda við líbísk stjórnvöld þangað sem flóttafólk er sent í skelfilegar aðstæður. Þetta þýðir að bátar fullir af flóttafólki sem fundnir eru af þeim sem sinna þessu landamæraeftirliti eru dregnir aftur til Líbíu og ef þeir sökkva ekki á leiðinni til baka fer fólk þangað í skelfilegar aðstæður þar sem ofbeldi, pyndingar og frelsissvipting eru daglegt brauð, jafnvel þrælahald, nauðganir og dauði. Þetta eru engar ýkjur, því miður. Það veit hver maður að eina leiðin til að sporna við smygli á fólki um lífshættulega leiðir er sú að skapa löglegar og öruggar leiðir, líkt og okkur forréttindafólki heimsins býðst nokkurn veginn hvert sem okkur dettur í hug að fara og hvað sem kemur upp á og bjátar á. Ástæðan fyrir að fólk velur þessa leið, þiggur aðstoð óprúttinna glæpamanna og leggur líf sitt að veði, er sú að það hefur engu að tapa og löglegu leiðirnar eru engar. Þau eiga ekki annarra kosta völ.

Ég verð því að lýsa því yfir hversu ámælisvert ég tel að fjármögnun Landhelgisgæslunnar fari fram með þessum hætti. Evrópusambandið hefur valið þá leið að girða Miðjarðarhafið af og styður uppsetningu og útvistun á flóttamannavandanum með búðum í Líbíu þar sem fólk býr við lífshættulegar aðstæður. Þetta er það sem Landhelgisgæslan tekur þátt í með Frontex-samstarfinu. Þetta er sú aðferð sem við höfum verið að nota til að fjármagna landamæravörslu okkar hér heima og aðra starfsemi.

Þá tek ég undir þá gagnrýni sem margoft hefur komið fram hér, m.a. í máli hv. þingmanna sem komu upp á undan mér, þ.e. áhyggjur af því að tækjabúnaður og starfsfólk sem Ísland hefur fjárfest í til þess að tryggja öryggi fólks á sjó í kringum Ísland í samræmi við þá þörf sem metin hefur verið hér á landi sé fjarverandi stóran hluta árs.