Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands.

514. mál
[15:09]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Það þarf ekki að leita lengi á netinu eða fara í umfangsmiklar upprifjanir á fréttamiðlum til að finna frásagnir af atvikum þar sem starfsfólk og tækjakostur Landhelgisgæslunnar skipti sköpum þegar mannslíf voru í hættu. Ég held að það hljóti að gilda um okkur öll að við höfum lesið, séð og heyrt slíkar fréttir, séð jafnvel myndskeið af frækilegri björgun, hvort heldur er á landi eða sjó. Að sjálfsögðu er það líka þannig að lítil þjóð í harðbýlu landi þar sem veður og vindar hafa ótrúlega mikil áhrif á líf og heilsu er háð því að starfsemi Landhelgisgæslunnar sé eins og best verður á kosið. Þjóð sem í gegnum aldirnar hefur stundað sjómennsku og er enn í þeirri stöðu að sú atvinnugrein er burðarstoð í samfélaginu er þakklát í hvert skipti sem hægt er að reiða sig á tæki og tól Landhelgisgæslunnar. Við þurfum því í raun ekki að hafa mörg orð um mikilvægi Gæslunnar í íslensku samfélagi. Mikilvægið er óumdeilt og því brýnt að reksturinn sé í lagi og ekki síður að fjárveitingar til stofnunarinnar sé í samræmi við ætlað hlutverk hennar. Því miður vantar talsvert upp á að samhengi sé á milli mikilvægis stofnunarinnar og þeirra fjárveitinga sem eyrnamerktar eru henni. Það kemur skýrt fram í skýrslunni sem hér er til umfjöllunar.

Hlutverk Gæslunnar er stórt og mikið. Við getum nefnt þar löggæslu og eftirlit á hafi, leitar- og björgunarhlutverk, sjúkraflutninga, aðstoð við löggæslu á landinu og aðstoð við almannavarnir. Þetta er ekki tæmandi upptalning en segir mikla sögu um að líf og heilsa borgaranna er undir í fjölmörgum tilvikum.

En áður en lengra er haldið langar mig að nefna sérstaklega að brýnt er að fara rækilega ofan í saumana á hlutverki Landhelgisgæslunnar þegar kemur að öryggis- og varnarmálum þjóðarinnar nú þegar gerbreytt heimsmynd blasir við okkur vegna árásar Rússa á Úkraínu. Sú breytta heimsmynd kallar á endurmat og skoðun á öllum póstum samfélagsins og það er vinna sem við megum ekki vanrækja, hvað þá stinga höfðinu í sandinn og vona að allt fari vel. Landhelgisgæslan sinnir nú þegar ýmsum verkefnum sem lúta að þessu og er það til fyrirmyndar að okkar framlag til NATO sé með þessum hætti. Við þurfum hins vegar að ræða sérstaklega hvort hlutverk okkar á þessu sviði eigi ekki að vera veigameira í ljósi þess að við erum herlaus þjóð í varnarbandalagi, hvers mikilvægi er margfalt meira í dag en það var fyrir fáeinum mánuðum. Okkar framlag í alþjóðlegu varnarsamstarfi í gegnum verkefni Landhelgisgæslunnar er síst of mikið og fjárframlög til stofnunarinnar þurfa að endurspegla það. Hér vil ég þó árétta það sem segir í nefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að tekið sé undir þá tillögu Ríkisendurskoðunar að tekið verði til skoðunar „hvort gerð þjónustusamnings við jafn viðamikil verkefni sé farsæl leið að því marki að skýr ábyrgðarkeðja í faglegum og fjárhagslegum skilningi sé tryggð“, svo ég vitni nú beint í álitið. Svo er full ástæða til að taka alvarlega þá ábendingu Ríkisendurskoðunar að misbrestir séu við ákvarðanatöku varðandi nýtingu fjármuna, starfsmannahald, viðhald og endurnýjun búnaðar. Það er kallað eftir skýrum viðmiðum um viðbragðs- og björgunargetu Landhelgisgæslunnar, mannauðinn og tækjakostinn sem til þarf og langtímaáætlanir um fjárfestingar og mikilvægt að stjórnendur stofnunarinnar sem og dómsmálaráðuneytið taki þetta til sín.

Sömuleiðis hljótum við að lesa kaflann í skýrslunni af athygli þar sem vakin er athygli á því að frá árinu 2015 hafa tvö varðskip, Þór og Týr, verið til taks en varðskipið Ægir ekki haffært og að jafnaði sé hvort skipanna einungis á sjó hálft árið. Fram kemur að leitast eigi við að hámarka nýtingu og afköst varðskipa og auka viðveru TF-SIF á Íslandsmiðum og við hljótum að taka því mjög alvarlega þegar bent er á að nýta megi mun betur þau tæki sem Gæslan hefur þó yfir að ráða. Vissulega getur þar verið um að ræða talsverðan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð en við þurfum hins vegar ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þess að þessir hlutir séu í lagi. Við erum jú væntanlega öll sammála um að fjárhagsleg vangeta Gæslunnar á ekki að leiða til þess að lífi og heilsu fólks sé hætta búin.

Í skýrslunni kemur fram að Landhelgisgæslan hafi undanfarin ár keypt olíu á varðskipin í Færeyjum en innkaupsverð olíu sé lægra þar en hér á landi þar sem ekki þurfa að greiða virðisaukaskatt af olíunni í Færeyjum. Ein af tillögum Ríkisendurskoðunar er að olíukaupum í Færeyjum verði hætt. Ég vil taka heils hugar undir þessa athugasemd Ríkisendurskoðunar sem undrast að þetta hafi verið látið viðgangast af dómsmálaráðuneytinu án þess að fram hafi komið fullnægjandi upplýsingar um þá fjármuni sem stofnunin taldi sig vera að spara við olíukaupin. Þetta er gagnrýnivert og brýnt að bætt verði úr og stofnunin ekki sett í þá stöðu að vera of skapandi í sparnaðaráformum sínum.

Að síðustu langar mig að gera að umtalsefni þann lið í skýrslunni sem fjallar um afnot æðstu stjórnenda ríkisins á þyrlum Gæslunnar. Rakið er sérstaklega atvik frá því í ágústmánuði 2020 þar sem þáverandi dómsmálaráðherra var flogið frá Reynisfjöru til Reykjavíkur. Ráðherrann var í einkaerindum úti á landi en fékk far í bæinn til að fara á blaðamannafund. Þetta er ekki í lagi, hreint ekki í lagi. Þótt það komi fram hjá Gæslunni að viðbragðsgeta hafi ekki verið skert í þessu tilviki er þetta engu að síður alvarlegt og reyndar mjög alvarlegt og í raun misnotkun ráðherra á aðstöðu sinni. Þetta er ekki eina tilvikið eins og fram kemur í skýrslunni. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekur undir þessa gagnrýni og leggur áherslu á að settar séu reglur um þessa hluti. Ég vil taka það hér fram mjög skýrt að ég hef áhyggjur af því hversu auðvelt stjórnendur Gæslunnar áttu með að réttlæta þessa notkun á þyrlukostinum. Þetta snýst nefnilega ekki bara um hvort viðbragðsgeta hafi verið skert eða hvort þetta kallaði á aukin útgjöld eða ekki. Þetta snýst um þá ásýnd og það traust að almenningur hafi ekki ástæðu til að ætla að ráðamenn geti nýtt sér tækjakostinn til að fá skutl úr einkaferð í bæinn, hvað sem líður öllum heildarflugstundum eða öðru slíku. Ef almenningur fær ástæðu til að ætla að þessir hlutir séu ekki í lagi þá hrynur traustið og skyggir á það góða starf, það afbragðsstarf sem Gæslan innir af hendi.