Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands.

514. mál
[15:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands. Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar liggur fyrir og ég ætla ekki að rekja það allt hér í minni ræðu enda liggur það skriflega fyrir og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, hefur gert grein fyrir meginefni þess. En hlutverk Landhelgisgæslunnar er fjölbreytt og víðfeðmt í orðsins fyllstu merkingu, einir 1,9 milljónir ferkílómetrar af flatarmáli eða um 20 sinnum flatarmál Íslands. Innan þess svæðis stýrir stofnunin leit og björgun frá björgunarstjórnstöðinni í Skógarhlíð og eftir atvikum hefur hún beina aðkomu vegna neyðartilvika langt frá Íslandsströndum. Þá eru ótalin hin fjölmörgu verkefni sem lúta að eftirlits- og löggæsluhlutverki stofnunarinnar, til að mynda með fiskveiðum, bæði á grunnslóð og á hafi úti. Á vef stofnunarinnar segir að eftirlit með skipum nái m.a. yfir haffæri og öryggisbúnað skipa, réttindi stjórnenda til skipstjórnar, brot á lögum um fiskveiðar, fiskveiðistjórn og nytjastofna sjávar sem og mengunar í hafi. Eftirlit þetta er eftir atvikum samstarfsverkefni annarra eftirlitsstofnana og Landhelgisgæslunnar. Þessi upptalning er ekki tæmandi og á aðeins við um afmarkaðan hluta þeirra verkefna sem stofnunin sinnir. Það segir sína sögu um vöxt stofnunarinnar að siglingarsviðið, sá hluti Landhelgisgæslunnar sem hún er stofnuð í kringum, er núna minnst af kjarnasviðum stofnunarinnar.

Ég ætla ekki að gera alla hluta skýrslu Ríkisendurskoðunar að umtalsefni mínu hér í dag en tel engu að síður mikilvægt að halda umfangi stofnunarinnar til haga í ljósi mikilvægis þess að hún sé sem best í stakk búin til að sinna þessu meginhlutverki sínu sem lýtur að leit og björgun, löggæslu og eftirliti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er því skýrt haldið til haga að eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, sé vannýtt til eftirlits og björgunar en vélin hefur verið í útleigu hjá landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex. Jafnframt segir í skýrslunni að 62% heildarflugstunda vélarinnar hafi verið vegna leigu erlendis. Þá er því einnig haldið á lofti að mikil útleiga vélarinnar standist ekki viðmið landhelgisgæsluáætlunar. Eins og kemur fram í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands hefur Ísland ákveðnar skuldbindingar gagnvart landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu í gegnum Schengen og hlutaðeigandi aðilum falið að ráðstafa búnaði Gæslunnar, þ.e. loftförum og skipum ásamt áhöfnum, til þess eftirlits. Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið sem fram koma í nefndarálitinu um mikilvægi þess að tryggja bætt eftirlit við Íslandsstrendur með aukinni viðveru vélarinnar hér við land en bendi sömuleiðis á það sem fram kemur í skýrslunni að sá galli er á gjöf Njarðar að leigutekjur vegna TF-SIF hafa verið veigamesti hluti leigutekna stofnunarinnar. Þó að það sé ekki úrslitaatriði í rekstri hennar þá hamlar fjarvera vélarinnar Landhelgisgæslunni að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Í þessu samhengi þá tek ég undir með Ríkisendurskoðun sem bendir á að það verði að leggja hlutlægt mat á þjónustustig Landhelgisgæslunnar, m.a. með tilliti til viðbúnaðargetu, mannafla og tækjakosts.

Mig langar líka að taka undir það sem hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir talaði um í sinni ræðu og er kannski svona hliðargrein við það sem við erum að ræða hérna og heyrir kannski meira undir hæstv. utanríkisráðherra, en það er fyrirkomulagið á landamæraeftirliti Frontex. Það er gríðarlega mikilvægt að sinna leit og björgun á Miðjarðarhafinu en það skiptir auðvitað ekki síður máli að mannúðlega sé staðið að því hvernig flóttafólki sem er að fara þessa gríðarlegu hættulegu leið er sinnt. Þar tel ég að við sem þjóð meðal þjóða eigum að hafa rödd og við eigum að tala fyrir því að mannúð sé höfð að leiðarljósi. En það er kannski aðeins út fyrir efni þessarar skýrslu en þetta er hins vegar mikilvægur punktur sem tengist í rauninni inn á þetta vegna þess að þetta hefur með búnað Landhelgisgæslunnar og starfsmenn hennar að gera.

Það er endurtekið stef í skýrslunni að gera þurfi raunhæfar áætlanir um fjárfestingar, viðhald tækja og rekstur. Í þessu tilliti er bent á vankanta við ráðstöfun fjármagns og nýtingu þess vegna einstakra verkefna, til að mynda rekstur varðskipsins Ægis sem hefur ekki verið haffært um árabil. Jafnframt er bent á ýmsa möguleika þegar lýtur að verkefnum sem ættu frekar heima annars staðar, til að mynda sjómælingar Íslands. Þá er bent á að umtalsverður hluti tekna Landhelgisgæslunnar sé vegna þjónustusamninga.

Ég vil nefna það sérstaklega að í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er sérstaklega fjallað um orkuskipti sem annars var ekki hluti af úttekt Ríkisendurskoðunar. Ég fagna þeim sjónarmiðum sem þar koma fram og tel eðlilegt að Landhelgisgæslan, sem auk hins mikla fjölda verkefna sinnir eftirliti með mengun í hafi ásamt hlutaðeigandi stofnunum, verði leiðandi í orkuskiptum í skipaflota Íslands verði því komið við og að markmið þar að lútandi verði skjalfest og skráð í stefnumótun stofnunarinnar.

Þá tek ég undir þau sjónarmið að Landhelgisgæslan láti af siglingum til Færeyja til kaupa á olíu. Það er í mínum huga tvíþætt, annars vegar til að einfalda og auðvelda eftirlit með hafinu nær okkur og hins vegar vegna þess sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem ein af tillögunum er að olíukaupunum í Færeyjum verði einfaldlega hætt. Ríkisendurskoðun bendir á að hún fallist ekki á að haldbær rök séu fyrir sjónarmiðum um hagkvæman ríkisrekstur með þessum kaupum og að virðisaukaskattur sem Landhelgisgæslan vísar til að þurfi ekki að greiða fyrir í Færeyjum renni, ef eldsneytið er keypt á Íslandi, allur til ríkissjóðs. Mér finnst þetta vera atriði sem skiptir máli og vera eitt af þeim atriðum sem eigi að taka til skoðunar því að það skiptir svo sannarlega máli að stofnanir ríkisins standi skil á sköttum og skyldum og finni ekki einhverjar hjáleiðir fram hjá þeim frekar en önnur fyrirtæki.

Mig langar aðeins að gera varnarmálakaflann að umtalsefni. Ég get alveg tekið undir að það skiptir máli að þar sé skýr ábyrgðarkeðja í faglegum og fjárhagslegum viðmiðum og verkefnum. En ég vil gjalda varhuga við því að það sé verið að blanda saman hernaðarlegum og borgaralegum verkefnum en slíkrar tilhneigingar hefur mátt sjá stað í auknum mæli á undanförnum áratugum, einkum að frumkvæði herstjórnenda. Það sem af þessu leiðir er m.a. útgjöld til hernaðarmála verða undir yfirskini almannavarna. Mér finnst þetta vera atriði sem mikilvægt er að hafa í huga auk þess sem ýmsar borgaralegar stofnanir eru almennt ekki skotmörk ef til stríðsátaka kæmi, en það eru hernaðarverkefni og aðgerðir af hernaðarlegum toga. Þetta skiptir hreinlega máli fyrir öryggi Íslands.

Almennt vil ég segja það að skýrsla Ríkisendurskoðunar er gríðarlega gagnleg. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur vandað vinnu sína um skýrsluna og tekur undir þær ábendingar sem þar koma fram. Ég held að þessi skýrsla verði okkar samfélagi til góðs og leiði til eflingar Landhelgisgæslunnar ef við tökum mark á henni og ég tel reyndar ekkert í þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað í dag benda til annars en að svo verði. Ég þakka fyrir þessa skýrslu og vona að umræðan í dag verði okkur öllum til gagns því að Landhelgisgæsla Íslands skiptir svo sannarlega máli í íslensku samfélagi.