152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands.

514. mál
[15:29]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hérna álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands og það hefur verið fróðlegt að hlusta á umræðuna og eins að lesa þetta álit. Ég hjó eftir því strax þegar framsögumaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar mælti fyrir þessu máli að hún sagði að skýrslan hefði ekki verið nein skemmtilesning. Það kom fram að fjármögnuninni væri ábótavant. Það er akkúrat það sem einhvern veginn er gegnumsneitt við lestur þessa álits stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrsluna, að það skortir fjármagn og þar af leiðandi er skýrslan þannig úr garði gerð að það er verið að sauma að hlutum. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um það, og það kom meira að segja fram í ræðu áðan, að Landhelgisgæslunni skuli vera tryggð hæfni og geta til að sinna lögbundnu verkefnum sínum og þá þarf fjármögnun til þeirra athafna að vera myndarleg eða hún þarf að duga. Það er bara alls ekki það sem maður fær út þegar maður les niðurstöðu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Ég er mjög stoltur af sögu Landhelgisgæslu Íslands. Ég er mjög stoltur af því hvernig við Íslendingar stóðum saman í því að færa út landhelgi okkar á sínum tíma í nokkrum áföngum, 1948 er hún færð út fyrst í þrjár og svo fjórar mílur og það eru sett lög um þau mál hér á Alþingi og síðan er hún færð út í 12 mílur 1958 eða um það leyti sem sá sem hér stendur er að koma í heiminn. Síðan í 50 mílur og svo 200 mílur 1973–1976, einhvers staðar á því bilinu. Maður fylgdist mjög stoltur af því hvað við vörðumst keikir, Íslendingar, gegn Bretum aðallega og Þjóðverjum, við að færa út þessa landhelgi. Mér finnst alveg nauðsynlegt að halda þessu til haga og hvað tímarnir hafa breyst mikið síðan þegar við erum að ræða þessi mál og hvað margt hefur breyst líka í því hver krafan er. Hún er ekki bara í dag að verja landhelgina, hún er miklu meira en það. Það hefur komið skýrt fram í ræðum hér á undan.

Skipakostur Landhelgisgæslunnar hefur lagast mikið núna á örfáum árum með komu varðskipsins Þórs 2011 og varðskipið Freyja kom bara í fyrra, 2021. Þetta eru skip sem geta sinnt björgunarverkefnum og dregið stór skip sem eru í sjávarháska eða biluð úti í hafi, sem var varla hægt áður vegna þess að skipakosturinn var það lélegur. Við vorum með skip sem voru í landhelgisstríðunum um 50 mílurnar og 200 mílurnar og eru úr sér gengin fyrir löngu og hefði átt að vera fyrir löngu búið að skoða þau mál. Í mínum huga er líka eitt sem breytist þegar bandaríski herinn fer frá Íslandi 2006, þá verður svolítið gap í björgunarmálum vegna þess að það kom oft fyrir að bandaríski herinn hjálpaði til við björgun. Ég man eftir nokkrum tilfellum þar sem það skipti máli að það var hægt að fá þá til að hjálpa því þeir voru náttúrlega með mjög góð tæki og þjálfaðan mannskap. Eftir 2006 og þangað til 2011, þegar varðskipið Þór kemur, þá vorum við ansi blönk í þessum málum. Þannig að ég er frekar bjartsýnn á að þetta sé að komast í betri farveg en það þarf að tryggja það fjármagn sem þarf til að sinna þessum málum. Það sem tafði líka fyrir því, í mínum huga, að brugðist var við þessum málum var í raun og veru það gleðilega efni að hér voru sjóslys fá og lítið um mannskaða frá árunum, við getum sagt um 2000, ég er ekki með það alveg í hausnum. Núna hafa komið þau ár þar sem enginn hefur farist á sjó og það er mjög gleðilegt. En á móti megum við ekki vera kærulaus í því að hafa viðbragðshlutina í lagi eins og Landhelgisgæslan þarf að vera. En fiskiskip hafa tekið miklum framförum, og náttúrlega öll skip, og öryggisbúnaður hefur tekið miklum framförum. Það er skylda í dag að allir sem eru skráðir á skip fari í gegnum öryggisnámskeið, það hefur sýnt sig að það er mikið öryggisatriði, og þar fram eftir götunum. Þetta hefur orðið til þess til allrar guðs blessunar að lítið hefur verið um slys. En eins og ég segi, það má ekki koma niður á því að við séum ekki með tæki til þess að geta brugðist við ef eitthvað alvarlegt skeður. Hér hefur ýmislegt verið reifað eins og kaup á olíu í Færeyjum sem hlýtur að vera eðlilega gert af viðkomandi aðilum til að drýgja þann takmarkaða pening sem þeir hafa til rekstrar Landhelgisgæslunnar. Ég gef mér að það sé út af því sem þeir hafa keypt olíu í Færeyjum. Það er ekkert bara af því að þá langar til að fara til Færeyja og borða skerpukjöt. Ég á ekki von á því. Þannig að það eru skýringar á öllu svona.

TF-SIF hefur verið í leigu erlendis og það er sagt að hún sé vannýtt. Það er náttúrlega vegna þess, gef ég mér líka, að það kostar peninga að reka hana og hún hefur verið leigð til annarra verkefna til þess í raun og veru að dekka reksturinn. En að því sögðu þá tek ég alveg hjartanlega undir það að við eigum að taka þátt í erlendri aðstoð og erlendri björgunarstarfsemi eins og við getum ef þannig ber undir. Það er bara sjálfsagt mál og ekkert athugavert við það.

Það sem skín í gegn við að lesa þennan texta frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er fjárskortur. Það er nú svo algengt þegar maður er starfandi á Alþingi að alltaf komum við að sama hlutnum þegar við erum að ræða um að gera hlutina, að það þarf peninga. Við alþingismenn eigum að spara fyrir ríkið en líka að deila út peningum til þeirra starfa sem nauðsynleg eru og ég myndi segja að Landhelgisgæsla Íslands ætti að vera það vel fjármögnuð að við gætum verið mjög stolt af þeirri starfsemi sem þar fer fram. Það var virkilega gaman að vera vitni að því að sjá þessi skip koma eins og Þór og síðan Freyju, þessi stóru og öflugu skip sem eru mjög kröftug og vel tækjum búin til þess að sinna sínum verkefnum. Það hafa verið svo miklar framfarir í þessum málum síðustu örfáu árin, ég hef nú verið til sjós í 40 ár, að það er alveg ótrúlegt að verða vitni að því og mjög gleðilegt þannig að ég trúi því að það sé bjart fram undan hjá Landhelgisgæslunni eins og hjá okkur Íslendingum.