Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands.

514. mál
[15:39]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Mér er heiður að taka til máls í þessari umræðu um Landhelgisgæslu Íslands og ég tel að þetta sé ein af mikilvægustu stofnunum samfélagsins. Það er svolítið áhugavert að þegar maður horfir til virðingar Landhelgisgæslunnar að þá virðist orðstír hennar vera meiri erlendis en í íslensku samfélagi. Ég veit að litið er til Landhelgisgæslu Íslands með mikilli virðingu erlendis og þá í ljósi sögunnar að sjálfsögðu. Við erum herlaus þjóð og það að hafa öfluga landhelgisgæslu og geta varið landhelgina, efnahagslögsöguna, eins og hún hefur gert í þorskastríðunum, og barist fyrir stækkun hennar, var mjög mikilvægur hluti í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar er að mörgu leyti mjög athyglisverð og gott innlegg í umræðu um Landhelgisgæsluna. Hún fer ansi víða. Mig langar að drepa á nokkrum hlutum, t.d. því sem segir um skort á langtímaáætlunum, raunsæjum langtímaáætlunum. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að rekstur Landhelgisgæslunnar til lengri tíma sé í föstum skorðum. Núna er komið nýtt varðskip. Þór kom fyrir nokkrum árum og svo kom í fyrra, minnir mig, varðskipið Freyja, sem er staðsett á Siglufirði. Það er mjög vel að hafa það staðsett á Norðurlandi og búið að efla tækjakostinn með þessum tveimur skipum. Ég velti því upp hvort ekki mætti kaupa þriðja skipið til að hafa þá við austurströnd landsins, gera það kannski út frá Neskaupstað. Það er gríðarlega mikilvægt að við höfum eftirlit með þessu gríðarlega mikla hafsvæði sem 200 mílurnar í kringum landið í Norður-Atlantshafi eru og það verður einungis gert með öflugri landhelgisgæslu.

Það eru þarna atriði sem mér finnst athugaverð. Það er t.d. kafli um varnarmálin og við erum herlaus þjóð í Atlantshafsbandalaginu. Við erum eina herlausa þjóðin í Atlantshafsbandalaginu og ég get ekki skilið þann kafla öðruvísi í nefndarálitinu — það kemur reyndar ekki fram að vægi — það segir, með leyfi forseta:

„Í skýrslunni er fjallað um vægi varnarmálasviðs í heildarrekstri Landhelgisgæslunnar og aukin umsvif varnartengdra verkefna síðustu ár.“

Svo kemur fram að Landhelgisgæslan sinni þessum verkefnum í umboði utanríkisráðuneytisins með þjónustusamningi. Ég skil þennan kafla þannig að þessi varnartengdu verkefni séu raunverulega eingöngu verkefnin á Keflavíkurflugvelli, þ.e. að þegar loftrýmiseftirlitið kemur hingað þá sé það vegna umsjónar Landhelgisgæslunnar á því verkefni, annað sé það ekki, annað er ekki varnartengd verkefni. Ég lít ekki svo á varðskipin séu að sinna þeim varnartengdu verkefnum.

Það er annað sem vekur athygli mína og það er varðandi olíukaup í Færeyjum. Ég geri athugasemd við ummæli sem eru í skýrslunni. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun telur athugunarvert að Landhelgisgæslan geti ekki veitt betri upplýsingar um þá fjármuni sem stofnunin telur sig spara við olíukaup í Færeyjum.“

Svo er haldið áfram og segir, með leyfi forseta:

„Það er einnig umhugsunarvert að yfirstjórn ráðuneytis skuli hafa látið þessa háttsemi óátalda …“

Ég tel að Landhelgisgæslan, þeir sem stjórna útgerð skipanna, hafi einfaldlega verið, með því að vera að sigla til Færeyja, eins og kemur fram í skýrslunni, að drýgja þær fjárveitingar og auka úthald á varðskipunum eins og kostur er. Það var tilgangurinn með því og ég efast ekki um að þeir sem stjórna útgerð skipanna hjá Landhelgisgæslunni hafi verið að gera það með réttmætum hætti. Það sýnir að það er gríðarleg fjárþörf hjá þeim til að halda úti skipunum þannig að það þarf bara að auka fjármagn svo þeir fari þá ekki til Færeyja að kaupa olíu. Mér skilst að það sé reyndar hætt.

Annað sem vekur athygli mína er að rætt er um það í nefndarálitinu að til greina komi að hætta með sjómælingar, að þeim verði útvistað. Það tel ég alls ekki vera rétt. Ég tel að það sé mikil sérþekking innan Landhelgisgæslunnar, eins og kemur fram í frumvarpi um lög um Landhelgisgæsluna, sem er gríðarlega mikilvæg og sjómælingar eru í eðli sínu eitt af grundvallarstörfum Landhelgisgæslunnar. Ég get bara vitnað til karls föður míns sem var sjóliðsforingi og vann hjá Gæslunni á sínum tíma og sjómælingar eru meðal áhugaverðustu verkefna sem innt eru af hendi hjá Landhelgisgæslunni og af starfsmönnum hennar. Þetta er mjög sérhæft. Það er ekki hægt að fara í nám hérna hvað sjómælingar varðar og ég tel mjög mikilvægt að þær verði áfram innan Gæslunnar. Það er reyndar minnst á það í álitinu, þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Fyrir nefndinni voru reifuð þau sjónarmið að í ljósi mikilla samlegðaráhrifa með rekstri sjómælinga og öðrum verkefnum Landhelgisgæslunnar kunni að vera farsælla að útvista ekki þessum verkefnum.“

Það er alveg klárt í mínum huga að þessi verkefni eigi að vera inni hjá Landhelgisgæslunni, ekki neins staðar annars staðar og ekki að útvista þeim, bæði vegna samlegðaráhrifanna sem koma fram í textanum og líka vegna mikilvægis verkefnanna. Það að landgrunnið verði rannsakað af Gæslunni og Gæslan sjái um kortagerð — og það kemur fram í frumvarpi um Landhelgisgæsluna að Landhelgisgæslan hafi gert samning við bresku sjómælingarnar sem hafi verið til mikilla bóta fyrir sjómælingar.

Annað sem ég tel mjög mikilvægt hér eru öryggismál sjómanna og hlutverk Landhelgisgæslunnar hvað þau varðar. Ræðumaður hér áðan minntist á öryggismálin og sagði að sjóslysum hefði stórlega fækkað og það hefur ekki gerst af sjálfu sér. Það er m.a. vegna mikillar áherslu á öryggismál sjómanna. (Forseti hringir.) Við erum t.d. með skólaskip sem tekur á þessum málum og lögð hefur verið áhersla á það og þyrlukosturinn er gríðarlega mikilvægur hvað þetta varðar líka. (Forseti hringir.) Annað sem skiptir miklu máli er að flugvélin TF-SIF verði til notkunar á Íslandi og í íslenskri efnahagslögsögu (Forseti hringir.) en ekki til leigu til Evrópusambandsins hvað varðar landamæragæslu.

(Forseti (LínS): Forseti vekur athygli hv. þingmanns á því að hann nýtti allan ræðutíma flokks síns og fleiri komast því ekki á mælendaskrá.)