Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands.

514. mál
[15:47]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands. Þetta er áhugaverð skýrsla og mikilvæg og ber að þakka fyrir hana og umræðuna hér í dag um þessi mikilvægu mál sem tengjast Gæslunni.

Mig langar að hefja mál mitt á að ræða aðeins um leitar- og björgunarþjónustu í Norður-Atlantshafinu og innan efnahagslögsögu Íslands til framtíðar. Það hlýtur að vera samfélagslegt markmið að tryggja leitar- og björgunarþjónustu með þyrlum innan efnahagslögsögu Íslands og það er ákveðin skilgreining á bak við það, sem ég fer í á eftir þetta. Grunnatriði þessara skilgreiningar er að skilgreina kröfur sem gerðar eru til þeirra þyrlna sem eru í rekstri Landhelgisgæslunnar og þá snýst það einna helst um björgunargetu þyrlna Landhelgisgæslunnar á sjó. Þar er tekið mið af lögum um Landhelgisgæsluna sem skilgreina starfssvæði Landhelgisgæslunnar sem hafið umhverfis Ísland sem afmarkast af efnahagslögsögu landsins og landgrunninu auk úthafsins samkvæmt reglum þjóðaréttar. Til að setja hlutina í eitthvert stærðarsamhengi er Ísland rétt rúmir 100.000 km² og stærð efnahagslögsögunnar er rétt tæplega 800.000 km² eða átta sinnum stærri en landið. Til að sinna þessu hafsvæði sem er innan efnahagslögsögunnar er lagt upp með að þyrlur Gæslunnar hafi drægi til að geta flogið um 235 sjómílur frá strönd, sem eru ystu mörk efnahagslögsögunnar, og að þær geti tekið tíu manns um borð og náð til baka inn á eldsneytisstað, sem er þá almennt að komast aftur í land. Með því móti er hægt að sinna leit og björgun með þyrlu innan allrar efnahagslögsögunnar, ef menn koma til móts við þessar vegalengdir. Þar að auki fer Landhelgisgæslan með yfirstjórn leitar og björgunar á skilgreindu leitar- og björgunarsvæði Íslands sem nær yfir 1,9 milljónir km² og einnig sinna björgunarþyrlur Gæslunnar leit, björgun og sjúkraflutningum á landi. Það er kannski sá þáttur sem við verðum mest vör við í daglegum rekstri Gæslunnar. Það er orðið frekar sjaldgæft að farið sé langt út á haf og sóttir einstaklingar í sökkvandi skip en auðvitað eru oft farnar langar leiðir að sækja sjúklinga um borð, hvort sem þeir eru í skemmtiferðaskipum, togurum eða uppsjávarskipum og öðrum skipum.

Rétt er að geta þess um björgunargetu hér á landi, í kringum landið, að þyrlu- og björgunarsveit flughers Bandaríkjanna, sem var staðsett í Keflavík, yfirgaf landið 2006 og þá veiktist töluvert þessi geta hér í landinu. Síðan þá höfum við reynt að byggja upp þessa getu sem er kannski ekki enn komin á sama stað og hún var þegar herinn var í Keflavík. Þar voru fimm öflugar þyrlur til staðar og því erum við að leita allra leiða til að efla getu og styrk þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar sem allra best til að fylla upp í það skarð sem þyrlu- og björgunarsveit varnarliðsins skildi eftir sig á sínum tíma.

Síðan langar mig að vekja athygli á því að það hefur lengi verið í umræðu að þjónusta þyrludeildar Landhelgisgæslunnar sé mun veikari á austurhluta landsins. Það hefur verið umræða um að styrkja þjónustu Landhelgisgæslunnar á því svæði á undanförnum árum, bæði á austurhluta landsins og á hafsvæðinu norðan og austan við landið. Í þó nokkurn tíma hefur verið unnið að hugmyndum um að Landhelgisgæslan setti upp aðra starfsstöð á austurhluta landsins með sérstakri áherslu á þyrlurekstur Gæslunnar. Sá sem hér stendur hefur skrifað töluvert um það á undanförnum árum. Gæslan er að sinna um 15% af heildarsjúkraflugi í landinu en afar lítið af því flugi fer fram á austurhluta landsins. Það eru fjögur tilvik af 150 að meðaltali á ári á undanförnum árum, þannig að það er mjög lítill hluti sem er á austurhluta landsins. Þetta er vegna fjarlægða og fjalllendis og slíkra þátta. Það er bara langt að fara frá Reykjavík til að sinna leit og björgun og sækja sjúklinga á austurhluta landsins. Þar með hefur Mýflug sinnt um 85% af sjúkrafluginu með sínum tveimur flugvélum. Þar sem fjarlægðirnar eru miklar og aðstæður með þessum hætti til að sinna sjúkraflutningum á austurhluta landsins þá hef ég lagt fram tillögur um að það verði komið upp aðstöðu á Akureyri og þar yrði staðsett þyrla til að sinna því og hafsvæðinu norðan og austan við landið.

Það er ekki langt síðan sjöttu þyrluáhöfninni var bætt við hjá Landhelgisgæslunni, það eru fá ár síðan, og nú er svo komið að um tvo þriðju hluta ársins eru tvær áhafnir á vakt til að sinna flugi. Með því að bæta við sjöundu þyrluáhöfninni, einni í viðbót, færi það upp í um 95% af tímanum þar sem væru tvær áhafnir til reiðu, sem væri náttúrlega mikilvægt og nauðsynlegt skref. Kostnaður við það skref yrði væntanlega um 250–300 millj. kr.

Eins og ég hef bent á áður í pontu Alþingis eru til staðar á Akureyri læknar sem sinna núverandi sjúkraflugi með Mýflugi og þar eru líka flugvirkjar. Svo búa líka flugstjórar í Eyjafirði sem starfa hjá Landhelgisgæslunni, þannig að það er mikill mannauður til staðar fyrir slíkan rekstur nú þegar. Eins og hefur komið fram í þessari umræðu er ekki skynsamlegt að hafa öll eggin í sömu körfunni þegar kemur að eldsvoða, vatnstjónum og öðrum mögulegum skakkaföllum. Það er líka óskynsamlegt að hafa allar þyrlurnar á sama veðurfarssvæðinu. Því tel ég skynsamlegt að hluti af þyrlukosti Gæslunnar væri staðsettur úti á landi. Í þessu samhengi tel ég að það yrði auðsótt mál af hálfu Akureyrarbæjar að koma því við ef sótt sótt um flugskýli fyrir slíka starfsemi. Það hefur verið meira vandamál sunnan heiða, á Reykjavíkurflugvelli, að byggja upp húsnæðiskostnað en það virðist vera að lagast núna síðustu misserin og er hafin bygging við flugskýli.

Síðan kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að stofnunin telur að bæta þurfi nýtingu og afköst varðskipa og auka viðveru TF-SIF á Íslandsmiðum. Flugvélin er afar vel búin og hefur verið eftirsótt til verkefna fyrir landamærastofnun Evrópu, Frontex. Ríkisendurskoðun bendir á að TF-SIF sé vannýtt til eftirlits og björgunar þar sem meiri hluta af heildaflugsstundum vélarinnar hefur hún verið í leigu erlendis. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að flugvél Gæslunnar, TF-SIF, sé fyrst og fremst notuð til eftirlits og annarra verkefna hérlendis í ljósi meginhlutverks Landhelgisgæslunnar sem sé að sinna öryggisgæslu, björgun og löggæslu á hafinu við Ísland.

Það má kannski benda á í framhjáhlaupi að TF-SIF er ákaflega vel búin vél og þó að hún sé um tíu ára gömul í dag er hún ákaflega vel búin fyrir minni gerð flugvéla til að sinna því verkefni sem hún gerir fyrir landamærastofnun Evrópu. Hún er hagkvæm í rekstri og hefur því verið mjög eftirsótt af Frontex, landamærastofnun Evrópu, til að sinna verkefnum á Miðjarðarhafi. En auðvitað viljum við sjá meira af henni hérna heima til að tryggja öryggi og leit og björgun á okkar svæði. Mikilvægt er að að því sé stefnt.

Það kemur líka fram hjá Ríkisendurskoðun að skortur á raunsærri langtímaáætlanagerð þegar kemur að rekstri og fjárfestingum á skipakosti Landhelgisgæslunnar hafi reynst alvarlegur veikleiki. Þetta var náttúrlega ævintýralega stuttur tími í fyrra þegar Freyja kom til Siglufjarðar, það var bara átta mánuðum frá kaupunum, ákaflega vel heppnuð kaup og skemmtilegt að taka á móti skipinu í nóvember, þótt maður stæði þarna í ömurlegu veðri var þetta samt skemmtilegt. Það var kannski verið að kaupa skipið fyrir 20% af nývirði. Þetta voru ákaflega góð kaup.

Það sem vantar almennt inn í þetta eru tækninýjungar varðandi leit og björgun og eftirlit í Atlantshafinu. Við þurfum að búa til stefnu sem snýr að þessu. Við erum að sjá að drónar til margs konar notkunar hafa mjög eflst og tæknin að eflast mjög á öllum sviðum. Ég held að við þurfum að horfa til þess á næstu árum í starfsemi Gæslunnar.

Mig langaði síðan að koma aðeins inn á það sem komið er inn á í skýrslu Ríkisendurskoðunar og það eru varnar- og öryggismál í starfsemi Gæslunnar. Í dag er samningur við ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu Íslands um að sinna framkvæmd verkefna á grundvelli varnarmálalaga, nr. 34/2008, og var endurnýjað fyrir einhverjum árum. Þar eru margs konar verkefni sem við þurfum að fara að huga að núna og ættu kannski að tengjast umræðunni okkar um þjóðaröryggisstefnu landsins og slíka hluti, hvernig við eigum að fara með þessi mál þegar hlutir eru að breytast með þeim hætti sem við erum að upplifa núna og höfum verið að upplifa á undanförnum misserum, alla vega hefur þetta breyst mikið síðustu þrjá mánuði með innrás Rússa í Úkraínu. Við þurfum að skapa þessum málum betri umgjörð. Það hefur verið aðeins of tilviljunarkennt hvernig hlutirnir gerast. Síðan þurfum við að skilgreina hlutverkið leit og björgun í Norður-Atlantshafinu. Við stjórnum frá Íslandi gríðarlega stóru svæði, eins og ég kom inn á áðan, og ég held að með vinaþjóðum í NATO sé ástæða til að reyna að fara í þá vinnu að skoða hvernig eigi að tryggja þetta sem best varðandi skemmtiferðaskip og alla þá umferð sem við erum að verða vitni að í Norður-Atlantshafinu.

Það er rétt í lokin að ítreka mikilvægi þess að þetta sé skoðað. Það hefur orðið stór breyting í alþjóðakerfinu, í alþjóðastjórnmálunum, og ný mynd að verða til núna með innrás Rússa í Úkraínu. Sviðsmyndin er gjörbreytt og nú þegar við lítum til næstu ára og áratuga er full nauðsyn á að fara í gegnum þetta og skapa góða stefnu til næstu ára.

Ég vil þakka fyrir þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar og vonandi höldum við áfram að þróa það gríðarlega mikilvæga hlutverk sem Landhelgisgæslan gegnir. Ég þakka fyrir góða umræðu hér í dag um þetta gríðarlega mikilvæga mál.