Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands.

514. mál
[16:08]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Málefni Landhelgisgæslu Íslands skipta okkur öll máli og því ber að fagna skýrslu Ríkisendurskoðunar um verkefni og fjárreiður Landhelgisgæslunnar til að hægt sé að átta sig með betri og skýrari hætti á stöðu Landhelgisgæslunnar gagnvart þeim verkefnum. Það er mikilvægt að við notum skýrsluna til þess að horfa til framtíðar og meta með hvaða hætti hún getur nýst til að gera starfsemina betri og hagkvæmari, en mikilvægi stofnunarinnar fyrir land og þjóð verður ekki dregið í efa. Að mati þess sem hér stendur er það eitt af mikilvægustu verkefnum Landhelgisgæslunnar, ef ekki það mikilvægasta, að vera sjómönnum og sjófarendum til aðstoðar ef aðstoðar er þörf. Íslenskir sjómenn eiga með skýlausum hætti að geta treyst á starfsemi Landhelgisgæslunnar og það er okkar og stjórnenda Gæslunnar að tryggja að svo sé. Land sem byggir í eins miklum mæli á útgerð þarf að hafa þá hluti í lagi. Öryggismál sjómanna hafa verið tekin til gagngerðrar endurskoðunar á síðustu árum sem hefur leitt til gjörbyltingar í landslagi er kemur að öryggi sjómanna um borð við vinnu sína. Slysum hefur fækkað verulega sem og dauðsföllum og þarf ekki að horfa langt aftur í tímann til að sjá allt annað landslag. Sem dæmi um það eru árbækur áranna 1982–1987 glöggt dæmi þar sem sérkafli var í þeim bókum um slys og slysfarir á sjó við Íslandsstrendur. Það er óhætt að segja að grettistaki hafi verið lyft á þeim vettvangi. Þar hefur Landhelgisgæslan svo sannarlega hlutverk og hefur sýnt og sannað í fjölmörgum tilfellum styrk sinn og mátt er kemur að björgunarhlutverki á sjó og landi. Það verður að vera tryggt að svo sé áfram og sú þróun sem ég lýsti hér ofan haldi áfram í þá átt að auka öryggi okkar sjómanna með samvinnu útgerðar, björgunarskóla sjómanna og Landhelgisgæslu. Stjórnvöld þurfa að tryggja Gæslunni fjármagn til þess að sinna því hlutverki sem henni er ætlað og á að hafa.

Siglingar varðskipa Gæslunnar til Færeyja eftir olíu er í raun hið ótrúlegasta mál, sama hvernig á það er litið. Það að Landhelgisgæslan sjái sér hag í því að sigla til Færeyja eftir olíu í stað þess að taka hana hér heima er í raun og veru ótrúleg staða og henni verður að breyta. Fyrir utan þá sóun sem siglingin sjálf felur í sér, umhverfisáhrifin og kolefnissporið, er ljóst að viðbragðsgeta skipanna innan íslenskrar efnahagslögsögu og þar með talið Landhelgisgæslunnar er skert með þessu móti.

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að skoða þetta í stærra samhengi. Það er mín tillaga í þessu máli að skoðað verði með kaup á eldsneyti til allra viðbragðsaðila og þá með hvaða hætti er hægt að veita þeim afslátt, hvort sem það er í formi endurgreiðslu virðisaukaskatts líkt og björgunarsveitir eru með eða með einhverjum öðrum hætti. En þetta verður að taka til gagngerrar endurskoðunar. Svo ég taki lögreglunni sem dæmi, sem ég þekki ágætlega, þá eru laun og launagreiðslur um 80–85% af heildarútgjöldum og því lítið svigrúm til hagræðingar í öðrum rekstri. Þegar fastur kostnaður er tekinn inn, svo sem húsnæði, rekstur bifreiða, tækja- og búnaðarkaup, þá er ljóst að það sem eftir stendur er lítið sem ekkert. Lækkun á eldsneytiskostnaði myndi skipta þessar stofnanir verulegu máli og auka getu þeirra til að sinna þeim verkefnum sem eru lögbundin og ætlast er til að þær sinni á hverjum tíma. Það getur ekki talist eðlilegt að Landhelgisgæslan sé knúin til að fara út fyrir efnahagslögsöguna til að sækja sér sitt eldsneyti. Þeirri stöðu verður að breyta, eins og ég sagði. Ég trúi ekki öðru, virðulegur forseti, en að það sé vilji allra hér inni að Landhelgisgæslunni sé gert að starfrækja skip, þyrlur og flugvélar þannig að með hagkvæmum hætti sé hægt að sinna þeim verkefnum sem stofnuninni er falið og krafa er um og gengið út frá öryggissjónarmiðum sjómanna og landsmanna allra. Ekki má heldur líta fram hjá því öryggishlutverki sem Landhelgisgæslan gegnir innan lands og hefur aukist verulega á síðari tímum með fjölgun ferðamanna hér á landi. Einnig hefur Landhelgisgæslan stórt hlutverki þegar kemur að flutningi slasaðra frá slysavettvangi og í einhverjum tilvikum flutningi á einstaklingum á milli sjúkrastofnana þó að sú starfsemi sé aðallega í höndum þeirra sem sinna sjúkraflugi. Að öllu þessu upptöldu er ljóst að öryggishlutverk Landhelgisgæslunnar er gríðarstórt.

Mikilvægi varnarmála fyrir Ísland hafa aukist verulega á síðustu árum, ekki síst á síðustu mánuðum. Umræður um varnarmál hafa þó ekki verið þungar í umræðunni, hvorki á Alþingi né í samfélaginu, þó svo að einstakir aðilar eða samtök hafi haft á þeim sterkar skoðanir. Þetta hefur breyst og að mínu mati á eftir að breytast verulega á næstu misserum. Umræður um varnarmál landsins eru nauðsynlegar og það er einfaldlega barnaskapur að halda öðru fram. Það að Ísland sem við tölum um að sé þátttakandi í samfélagi þjóða, þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi á mjög breiðum grunni, sé á einhvern hátt ónæmt fyrir þeim ógnum sem nú beinast að ríkjum Evrópu er því miður málflutningur sem ekki stenst skoðun og við verðum, við sem erum kosin til setu á Alþingi Íslendinga, að taka þetta alvarlega og ræða. Það er mikilvægt að staða Landhelgisgæslunnar sé skýr er kemur að varnarmálum og það sé skýrt hvert hlutverk hennar er. Stefnt var að því að málefni öryggis- og varnarmála yrðu færð frá utanríkisráðuneytinu til þáverandi innanríkisráðuneytis en aldrei kom þó til þeirra færslu og þjónustusamningur um verkefnið hefur fest í sessi. Þessu þarf að breyta að mínu mati og gera hlutverk og verkefni Gæslunnar skýr innan þess ráðuneytis sem yfir hana heyrir. Einfaldari boðleiðir og einfaldari stjórnsýsla getur skipt máli er varnarmál eru annars vegar. Sú sviðsmynd sem er að teiknast upp nú í austanverðri Evrópu mun hafa áhrif á okkur Íslendinga og nú þegar farin að gera það á svo mörgum sviðum.

Virðulegur forseti. Það er von mín að þessi umræða og þessi skýrsla eigi eftir að skila Landhelgisgæslunni árangri til framtíðar er kemur að rekstri og þeim fjölmörgu stóru og smáu verkefnum sem stofnunin sinnir á hverju ári. Mikilvægi Landhelgisgæslunnar fyrir íslenskt samfélag er gríðarlegt og er allra hagur að stofnunin fái að vaxa og dafna í takt við breyttar aðstæður í samfélaginu á hverjum tíma. Ég óska starfsmönnum Landhelgisgæslunnar velfarnaðar í þeim mikilvægu störfum fyrir íslenska þjóð.