Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands.

514. mál
[16:22]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla á þessum stutta tíma sem eftir er að ræða það sem fengið hefur mesta athygli í þessari umræðu um annars langa skýrslu. Ríkisendurskoðun óskaði eftir að Landhelgisgæslan upplýsti hversu oft loftför stofnunarinnar hafi verið notuð til að flytja ráðherra, ráðuneytisstjóra og aðra aðila innan eða á vegum stjórnsýslunnar á árunum 2018–2020. Fram kom í svari stofnunarinnar að ráðamenn voru meðferðis í tíu flugverkefnum. Forseti. Hér þykir mér rétt að árétta að spurning Ríkisendurskoðunar fól ekki í sér að um einkaerindi hafi verið að ræða þó að það megi skilja sem svo í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað hér um þessa skýrslu og niðurstöður hennar. Það mál sem verið hefur hvað mest til umræðu varðar það þegar dómsmálaráðherra var farþegi í þyrlu Landhelgisgæslunnar frá Reynisfjöru til Reykjavíkur og aftur til baka í ágúst 2020. Til að allrar sanngirni sé gætt í þessari umræðu tel ég rétt að það sé skýrt tekið fram að þrátt fyrir að ráðherrann hafi verið staddur úti á landi í einkaerindum var ástæða flugferðarinnar það ekki. Ástæða flugferðarinnar var þvert á móti að ráðherra þurfti að sinna embættisverkum sínum og hafði það erindi að taka þátt í samráðs- og blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins. Mat Landhelgisgæslunnar er að viðbragðsgeta stofnunarinnar hafi ekki verið skert og ef komi til útkalls þegar farþegar eru um borð sé þeim hleypt frá borði eins fljótt og mögulegt er til að sinna megi útkalli. Í tilkynningu Landhelgisgæslunnar af þessu tilefni kom fram að flug sem þessi væru innan flugtímaáætlunar stofnunarinnar og því ekki um óeðlilega tilhögun að ræða. Þrátt fyrir það hefur viðkomandi ráðherra viðurkennt að það hafi verið mistök að þiggja þetta boð Landhelgisgæslunnar um að nýta þyrluna með þessum hætti og sjálfsagt að endurskoða með hvaða hætti staðið væri að flugi Landhelgisgæslunnar í þágu ráðamanna þrátt fyrir að eingöngu væri um embættiserindi um að ræða. Ég nota tækifærið hér og tek undir það sjálfsagða sjónarmið.

Forseti. Ég tel rétt í ljósi umræðunnar hér að hnykkja á helstu atriðum þessa máls eins og þau birtast í skýrslunni svo ekki verði um neina upplýsingaóreiðu að ræða í þessu tiltekna máli. Í tillögu Ríkisendurskoðunar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun telur að setja þurfi skýrar viðmiðunarreglur um afnot æðstu stjórnar ríkisins af loftförum í eigu eða leigu stofnana ríkisins, þ.á.m. Landhelgisgæslu Íslands. Slíkar reglur verði einkum látnar taka til flutninga vegna óvæntra atburða eða formlegra athafna á vegum æðstu stjórnar ríkisins en að öll einkanot verði óheimil.“

Viðbrögð Landhelgisgæslunnar voru sem hér segir, með leyfi forseta:

„Landhelgisgæslan telur sjálfsagt og eðlilegt að reglur vegna nýtingar loftfara í verkefnum óviðkomandi eftirlits- og björgunarstörfum verði settar. Landhelgisgæslan ítrekar að engin dæmi eru um að loftför stofnunarinnar hafi verið nýtt í einkaerindum.“

Ég leyfi mér í þessu samhengi og í ljósi þessarar umræðu allrar að endurtaka síðustu setninguna: „Landhelgisgæslan ítrekar að engin dæmi eru um að loftför stofnunarinnar hafi verið nýtt í einkaerindum.“