152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[16:50]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Ég er bara hjartanlega sammála hv. þingmanni. Það er kannski eitt sem við þurfum að hafa svolítið í huga þegar við erum að veita fjármagn til atriða eins og þessa. Það er ekki nóg að láta bara fjármagn í fólk, þ.e. að borga fólki launin sín. Það þarf að setja fjármagn í þjálfun, það þarf að setja peninga í erlent samstarf. Það þarf að setja peninga t.d. í það að senda fólk í starfsnám. Ég veit að þetta hefur verið gert, það eru sennilega komin svolítið mörg ár en alla vega veit ég um lögreglukonu sem fór til FBI í sex mánuði í starfsnám til að vinna nákvæmlega í þessum málum. Það er um að gera að við hugsum um allt, ekki bara að segja alltaf: Já, við þurfum þrjá rannsakendur, það eru 40 milljónir. Nei, við þurfum að hugsa um allan kostnaðinn.

Varðandi þessa tækni sem ég nefndi sem er notuð til þess að þurfa ekki að skoða allt myndefni upp á nýtt, allar myndir upp á nýtt, þá er þetta er tækni sem var þróuð í samvinnu við bæði Interpol og samtök í Bandaríkjunum sem heita National Center for Missing and Exploited Children, sem ég veit ekki hvernig maður þýðir en það er miðstöð fyrir börn sem hafa týnst eða verið numin á brott eða farið illa með. Þetta er í dag notað af stórfyrirtækjum til að passa að það sé ekki verið að dreifa barnaklámi á þeirra miðlum.