152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[17:11]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ef ég hefði svarið þá gætum við komist ansi langt en ég hef ákveðnar hugmyndir um það af hverju þetta er svona. Hv. þingmaður kom hingað upp í pontu og lýsti sjálfum sér sem hvítum miðaldra manni. En hann er ekkert hvítur, ætli hann sé ekki bara bleikur ef við skoðum hörundslit hans? Við erum búin að setja okkur sjálf í einhvern dilk, að við séum hvít og hin séu svört þannig að við erum að setja fólk í hólf. Mér þótti það gaman og fallegt þegar ég sá einhvern tímann vídeó af hvítum og svörtum strák standa hlið við hlið og sá hvíti spurði: Hver er munurinn á okkur, á mér og vini mínum? Það lá eiginlega við að segja að svarið væri: Þú ert hvítur, hann er svartur. En nei, þeir voru með sitthvora klippinguna. Það var eini munurinn á þeim sem litla barnið sá. Það er kannski það sem við þurfum að gera. Við þurfum að tala um þetta við litlu börnin okkar. Það er enginn munur á okkur. Við höfum bara annað litaraft, ég er bleikur og þú ert bleikur. Það er manneskjan sem skiptir okkur máli. Við þurfum að gera það sem litlu börnin gera, þau eru ekkert að setja okkur í hólf þannig að við þurfum að rækta það og láta þann gróanda lifa þegar við verðum orðin fullorðin að við séum ekki að setja fólk í hólf.