152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

318. mál
[19:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Þetta mál sem við ræðum í dag er mikilvægur liður í að uppfylla tilmæli sem koma frá vinnuhóp OECD sem kallast Working Group on Bribary, með leyfi forseta, sem útleggst sem vinnuhópur um mútur. Nefnd á vegum vinnuhópsins framkvæmdi úttekt hér á landi árið 2020 og það kom út skýrsla í lok þess árs um framkvæmd Íslands á mútusamningnum. Þessi úttekt sneri alveg sérstaklega að getu íslenskra stjórnvalda til að koma upp um erlend mútubrot auk getu þeirra til að stunda skilvirkar rannsóknir og auðvitað rannsóknir sem leiða svo til saksóknar og vonandi sakfellingar fyrir slík alvarleg brot. Við skulum hafa í huga að erlend mútubrot eru gríðarlega alvarleg brot. Þetta eru brot sem grafa undan lýðræði í öðrum ríkjum. Þetta er útflutningur á spillingu. Það er það sem þetta frumvarp reynir alla vega að taka smá tillit til. Ég segi smá tillit vegna þess að hér er aðeins verið að laga pínulítinn hluta af öllum þeim tilmælum sem hafa komið frá þessum vinnuhópi. Af þeim 17 tilmælum sem hafa komið frá þessum vinnuhópi er búið að uppfylla tvenn síðan 2010. Það eru liðin 12 ár. Þetta eru þrjú kjörtímabil, þ.e. ef kjörtímabilin hefðu verið venjuleg á þessum tíma sem það hefur tekið að uppfylla tvenn af 17 tilmælum. Það er auðvitað gríðarlega lélegt.

Frú forseti. Ég kom inn á þetta líka í ræðu í 1. umr. um þetta mál. Ég virðist hafa misst af 2. umr., líklega var ég erlendis í erindagjörðum. Þess vegna er gott að fá tækifæri til að ræða þetta mál í 3. umr., sérstaklega vegna þess að það bólar ekkert á frekari aðgerðum til að bregðast við þessum tilmælum. Þó að það sé gott að nú séum við að taka af allan vafa um að erlend mútubrot eigi líka við um þá sem greiða starfsmönnum opinberra fyrirtækja mútur til þess að gera eitthvað sem þeir ættu ekki að gera eða aðhafast ekki eitthvað sem þeir ættu að aðhafast, þá er það bara alls ekki nóg í skilningi þess sem við þurfum að gera til að berjast gegn þessum mjög alvarlegu glæpum sem erlend mútubrot eru. Við erum aðilar að samningi um baráttu gegn erlendum mútubrotum og það er ástæðan fyrir því að við fáum þessar úttektir. Það er auðvitað mjög alvarlegt að það hafi komið fram í síðustu úttekt að af fjórum konkretmálum sem sneru að erlendum mútubrotum sem var beint til þar til bærra yfirvalda hafi aðeins eitt þeirra verið tekið til rannsóknar og hin hafi bara verið skilin eftir. Það hefur bara ekkert verið gert með þau. Það er náttúrlega ótrúlegt, virðulegi forseti, að það hafi komið fram skýrar ábendingar um erlend mútubrot af hálfu íbúa á Íslandi og það hafi ekkert verið gert, ekki einu sinni verið brugðist við, ekki einu sinni hafin rannsókn. Það segir auðvitað sína sögu. Það segir líka sína sögu að eina málið sem hefur verið rannsakað er Samherjamálið. Það er væntanlega að miklu leyti vegna þess að það var auðvitað ekki annað hægt miðað við uppþotið sem varð í samfélaginu í kringum það mál. Enn bíðum við eftir einhverri haldbærri niðurstöðu og einhverjum fréttum um hvar það mál er statt. En það er nú önnur saga. Þremur árum síðar.

Mér finnst líka mikilvægt að árétta að mikið af þessum tilmælum sem er beint til okkar snýr einmitt ekki að lagatæknilegum atriðum eins og það sem þetta frumvarp er að snurfusa og laga núna heldur að praktískum atriðum. Það snýr að fræðslu þar til bærra yfirvalda um hvernig eigi að greina, finna, rannsaka og saksækja svona mál. Það er ekkert búið að uppfylla af þeim einföldum tilmælum að koma á einhvers konar fræðslu um þessi mál. Það hefur bara einfaldlega ekki verið brugðist við því. Hluti af þessu eru líka viðbrögð til að tryggja að þróunaraðstoð sem Ísland veitir sé ekki misnotuð, t.d. í þeim tilgangi að múta erlendum opinberum starfsmönnum. Það kemur fram og er eitt af þessum tilmælum að veita eigi þeim aðilum sem sinna þróunaraðstoð fræðslu, fræða þá um merki þess að verið sé að greiða mútur og tilkynningarskyldu þeirra til opinberra aðila á Íslandi gagnvart slíkum grun. Þetta voru tilmæli til Íslands árið 2010. Það hefði nú kannski verið ágætt að vera búin að uppfylla þetta þegar Samherjamálið kom upp því að eins og við vitum þá liggja þeir undir grun um að hafa notfært sér þann góða vilja sem var gagnvart Íslandi út af þeirri þróunaraðstoð sem þar hefur verið veitt. Þessi fræðsluátök sem er verið að tala um snúast um að það eigi að fræða opinbera starfsmenn, að fræða endurskoðendur, að fræða alla þá sem í raun vettlingi geta valdið í baráttunni gegn þessum brotum. Það er einfaldlega ekki gert. Mér finnst það mjög sérstakt. Síðan er það einfaldlega vangeta yfirvalda til að sinna þessum málaflokki bara út af manneklu eða fjárskorti. Ég spurði hæstv. dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, út í þetta, hvort hann ætlaði að gera eitthvað til að bæta viðbragðsgetu stjórnvalda við erlendum mútubrotum, getu þeirra til að rannsaka mál, getu þeirra til að saksækja og fá fram sakfellingu fyrir svona alvarleg brot. Ráðherrann stökk á eitthvert tækifæri sem hann sá þarna og fór að tala um forvirkar rannsóknarheimildir, hann hefði svo mikinn áhuga á þeim. Það að við værum ekki með njósnaraheimildir lögregluyfirvalda hér á landi stæði í vegi fyrir að við gætum staðið í lappirnar gagnvart erlendum mútubrotum. Það er auðvitað af og frá, frú forseti. Það var alls ekki það sem ég spurði um og þegar ég áréttaði að ég væri ekki að biðja hann um rökræður um ágæti þess að lögreglan fengi frjálsa heimild til að njósna um borgarana þá svaraði hann því til að hann væri í almennri athugun um hvernig væri hægt að nýta mannafla lögreglunnar betur og hann ætlaði að taka yfirvegaða ákvörðun um þetta á grundvelli einhverrar greiningar. Hann vísaði í það að það væri ekki hægt að senda lögreglumenn beint úr Lögregluskólanum í svona efnahagsbrotarannsóknir, sem er alveg rétt en þessi tilmæli komu fyrir 12 árum síðan og það hefði verið leikur einn að græja þetta þá. En það var ekki gert. Það breytir því ekki að okkur ber skylda til þess að efla getu okkar til að bregðast við, rannsaka og saksækja erlend mútubrot. En það liggur í nefnd eins og svo margt annað hjá þessari ríkisstjórn. Það er verið að skoða og það er verið að pæla. En það er ekkert verið að gera þrátt fyrir að ekki sé búið að uppfylla nema tvenn af 17 tilmælum vinnuhópsins gegn mútubrotum síðan 2010. Það er gott að þetta komi í nefnd, kannski sjáum við þetta eftir tíu ár.

Við þurfum auðvitað að laga þennan seinagang, taka af allan vafa. Það sem við erum að gera núna er að taka af allan vafa um að það að múta starfsmönnum opinberra fyrirtækja sé ólöglegt. Það hefði mátt koma fyrir tíu árum síðan. Það hefði mátt koma fyrir 12 árum og það hefði mátt vera til staðar fyrir Samherjamálið vegna þess að þar er vissulega líka um opinbera starfsmenn að ræða. En nei, 12 árum seinna erum við með eitt lagatæknilegt frumvarp að tikka í eitt, kannski tvö box af þeim 15 sem eftir eru. Það er auðvitað bara rosalega lélegt. En mér finnst þetta vera hluti af stærra samhengi sem er gríðarlegt sinnuleysi, kerfislægt sinnuleysi, gagnvart fjármálaglæpum á Íslandi. Það er ástæðan fyrir því að við lentum á gráa lista FATF hér um árið. Það er vegna þess að við höfum ekki sinnt þessum málaflokki í rúman áratug. Þetta er viðvarandi vandamál. Það birtist t.d. í gríðarlegum niðurskurði gagnvart sérstökum saksóknara 2013, niðurskurði sem hefur ekki að fullu verið bættur gagnvart eftirmanni eða eftirembætti þess embættis og það sýnir sig bara í hverju málinu á fætur öðru. Það er allt gert til þess að eftirlit með mútubrotum, með peningaþvætti og öðrum vafasömum fjármálagjörningum sé í lágmarki. Það þarf endalausan barning af hálfu alþjóðlegra stofnana til að litla fingri sé lyft í viðbrögðum við slíku.

Mér fannst mjög áhugavert það sem hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom inn á hér áðan varðandi starfsmenn alþjóðastofnana. Nú er ég hluti af Evrópuráðinu og þar kom upp gríðarlegt hneyksli árið 2017 þar sem kom í ljós að yfirvöld í Aserbaídsjan hefðu verið í stórum stíl að múta þingmönnum Evrópuráðsþingsins til að hafa áhrif á skýrslur þingsins sem tengdust Aserbaídsjan á neikvæðan hátt. Það var bara undir hverju aðildarríki fyrir sig komið hvort það vildi grípa til einhverra aðgerða eða ekki og margir hafa í raun komist undan ábyrgð í þessum efnum þannig að þetta er eitthvað sem ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum að skoða vel og vandlega og tryggja að þetta falli undir lögin. Ég er sammála, það er óljóst hvort lögin ná yfir þetta eða ekki, eflaust misjafnt eftir löndum. En það þarf að tryggja að þessi lög nái líka utan um þessa tegund af opinberum starfsmönnum.