152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

318. mál
[19:22]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina og umfjöllun hennar um þetta mál, erlend mútubrot. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður er býsna gagnrýnin á það hversu seint þetta er að koma inn og að við séum lengi að bregðast við o.s.frv. En ég velti aðeins fyrir mér hvort það sé ekki í þessu frumvarpi, þótt seint sé fram komið, ýmislegt sem skiptir mjög miklu máli fyrir okkur. Auðvitað eru eitthvað af þessu atriði sem okkur hefur verið bent á að við verðum að laga ef við ætlum að taka þátt í hinu alþjóðlega regluverki og hefur verið bent á lengi. En mér sýnist þrátt fyrir það að það sé býsna gott, t.d. að það sé verið að hækka refsihámarkið úr fimm árum í sex — refsihámark. Það kann að vera að það væri gott ef það væri enn þá hærra. Nú er ég ekki fylgjandi þungum refsingum, alls ekki. En við höfum dæmi þess að mútubrot hafi stórkostleg áhrif á heilu samfélögin þannig að við skulum ekki líta svo á að um sé að ræða léttvæg brot.

Einnig velti ég fyrir mér hversu mikilvægt það er að það sé verið að lengja fyrningarfrestinn úr fimm árum í tíu, af því að þessi mál eru býsna flókin rannsóknar, ekki satt? Það er kannski þetta sem mig langar aðeins að ræða við hv. þingmann, hvort hún geti ekki verið sammála um að það skipti mjög miklu máli að það sé þó verið að gera þessar breytingar.