152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

318. mál
[19:35]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er auðvitað hárrétt að það er tímabært að við köllum eftir upplýsingum um stöðu mála á þessum sjö atriða lista.

Mig langar aðeins í tengslum við lokaorð hv. þingmanns að tala um að það gleymist víst stundum — nú erum við náttúrlega að breyta lögum og þetta er jákvæð breyting, það er ekki spurning — að við erum með innviði sem skipta máli, sem er lögreglan, það er ákæruvaldið og það er dómsvaldið og það eru eftirlitsaðilar á borð við Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið. Þetta eru lykilstofnanir í því að verja almenning fyrir skipulögðum brotum gegn almannahagsmunum og mútubrot heyra þar sannarlega undir. Hv. þingmaður hefur komið inn á það í ræðu sinni og það hafa aðrir gert, um mikilvægi þess að við búum svo um hnúta að þessar stofnanir og þessir aðilar geti sinnt þessum hlutverkum sínum. Ég hef áhuga á því að heyra hvað hv. þingmanni finnst. Á sama tíma og hér er verið að leggja fram — þótt vissulega sé listinn orðinn langur og mögulega lítið um efndir — einhverjar aðgerðaáætlanir á þessa vegu, það er verið að fara í lagabreytingar í takt við álit alþjóðastofnana, fara þá saman orð og aðgerðir síðan í því hvernig við undirbyggjum þessa mikilvægu innviði hér í kerfinu okkar til að takast á við þessa, mér liggur eiginlega við að segja nýja og breytta tíma? Það verður að segjast eins og er að mútubrot sem ná yfir landamæri eru náttúrlega neikvæður fylgifiskur aukinnar alþjóðavæðingar. Leiksviðið verður sífellt stærra. Ég hefði áhuga á að heyra hugsanir þingmanns hér.