152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

318. mál
[20:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Þetta var fínt dæmi sem hv. þingmaður tók af kosningalögunum. En málið er nákvæmlega þetta. Og svo maður útvíkki það frekar með þessa nálægð alltaf þá hefur mér stundum þótt vilja brenna við að fólk veigri sér við, hvort sem það er í lagasetningu eða eftirfylgninni, af því að túlkunin verður sú, í stað þess að verið sé að hindra það að upp komi aðstæður sem orka tvímælis, að það sé verið að ásaka einhvern fyrir fram um eitthvað. Við erum viðkvæm fyrir þessu. Þetta er einhvern veginn í blóðinu á okkur mögulega vegna þess að við höfum verið fámenn þjóð alla tíð. Þá kem ég kannski að spurningunni. Nú erum við með lagasetningu og við erum líka mjög meðvituð um að eftirfylgnin síðan skipti máli. Svo er það hvort almannavilji og samfélagið gangi í takt við þau lög sem sett eru. Þá er komið að spurningu sem ég hefði áhuga á að varpa upp. Við viljum breyta þessu vegna þess að í sífellt flóknara samfélagi þar sem samskiptin eru opnari, alþjóðavæðingin, þá erum við væntanlega að sjá fram á möguleikann a.m.k. á fleiri brotum af þessum toga. Við þurfum að stemma stigu við því. Það er líka verið að gera kröfu á okkur rétt eins og OECD er að gera og fleiri alþjóðlegir aðilar. Er það löggjafans eingöngu að stemma stigu við þessu eða þarf einhverjar víðtækri samfélagsbreytingar til að menn sættist á að þarna þurfum við einfaldlega að gera betur? Það er spurningin.

Í ræðu sinni og í andsvörum núna hefur hv. þingmaður gert skýran greinarmun á því sem hann telur vera skyldu opinberra aðila annars vegar og einkaaðila hins vegar. Ég ætla aðeins að taka upp hanskann fyrir einkaaðilana. Auðvitað er það svo þar að það er ekki alveg sama hvernig hlutirnir eru gerðir og auðvitað er það svo að þar líðast ekki mútur og auðvitað er það svo að þar þurfa menn líka að fylgja lögum og reglum og viðskiptasiðferði og alls konar mál, hvort sem um er að ræða útboð eða gegnsæi í viðskiptaháttum. En opinberir aðilar bera kannski sérstaka ábyrgð.(Forseti hringir.)