152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

evrópskir áhættufjármagnssjóðir og evrópskir félagslegir framtakssjóðir.

244. mál
[20:24]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans tölu hér. Þegar maður horfir á þessa fyrirsögn, félagslegir framtakssjóðir, þá verður manni svolítið hlýtt í hjartanu við að sjá að það geti orðið til einhverjir framtakssjóðir starfandi hér sem horfi bara ekki eingöngu á arðsemissjónarmið hvað peninga varðar heldur félagslegan arð til framtíðar. Slíkir sjóðir eru eitthvað sem ég hef ekki getað gert mér í hugarlund að gætu orðið til. En maður hefur séð að það er orðið til eitthvað sem heitir græn skuldabréf sem fjárfestingarfyrirtæki eða bankar hafa verið að bjóða. Undir það falla þá verkefni sem eru umhverfisvæn og geta stuðlað að betra umhverfi til framtíðar og það er jafnvel þannig að ef þú uppfyllir einhver ákvæði um að geta fengið grænt skuldabréf þá fáir þú jafnvel betri vaxtakjör. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þetta gæti orðið að veruleika hér á Íslandi, burt séð frá því hvort við séum að innleiða þessa reglugerð eða ekki. Erum við á leið á þann stað að það verði til félagslegir framtakssjóðir á Íslandi?